„Málið er tilkomið af því að við höfum verið að fá kvartanir frá íbúum á svæðum þar sem verið er að þétta byggð og þar sem framkvæmdir standa yfir. Þar verður óhjákvæmilega ónæði þar sem byggingarframkvæmdirnar eru til þess fallnar.“
Þetta segir Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, en hún kom að gerð umsagnar frá Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ) varðandi hávaða vegna framkvæmda í íbúðabyggð og miðsvæðum í þéttbýli.
„Við höfum rekið okkur á að reglugerðin hjálpar okkur ekki nægilega vel í þeim málum sem við erum að fá á okkar borð,“ bætir hún við. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi því beint því til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að endurskoða reglugerð um hávaða í þeirri viðleitni að tryggja að betur væri hægt að bregðast við óásættanlegum aðstæðum við þéttingu byggðar.