Ber ekki saman um áverkana

Börkur (fjær) og Annþór (nær) í dómsal í Héraðsdómi Suðurlands …
Börkur (fjær) og Annþór (nær) í dómsal í Héraðsdómi Suðurlands í dag. mbl.is

Sérfræðingum í réttarlækningum sem báru vitni í máli Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar vegna dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni í dag bar ekki saman um orsakir áverka á milta sem talið er hafa dregið hann til dauða. Norskur sérfræðingur telur ólíklegt að högg eða spark hafi valdið áverkunum.

Í morgun kom þýskur réttarmeinafræðingur sem krufði lík Sigurðar Hólm Sigurðssonar sem Annþór og Börkur eru sakaðir um að veitt högg eða spark sem leiddi til dauða hans árið 2012. Hann bar að líklegast hafi ytri áverki valdið skaðanum á milta Sigurðar og útilokaði að hann hafi getað komið til við endurlífgunartilraunir. Þekkt væri að sljóum innvortis áverkum þurfi ekki að fylgja sjáanlegir áverkar.

Íslenskur réttarmeinafræðingur sem starfar í Bandaríkjunum sem fenginn var til að fara yfir krufningarskýrsluna tók undir að dánarorsök Sigurðar hafi verið sú að honum hafi blætt út vegna rifu á milta sem hafi fyllt kviðarhol hans með tveimur lítrum af blóði. Rof sem kæmi á miltað við endurlífgunartilraunir þegar hann var ekki lengur með lífsmarki hafi ekki getað valdið slíkri blæðingu. Þá væri það að hans mati afar ólíklegt að Sigurður hafi fengið hjartaáfall og lyfin sem hann hafði neytt gætu ekki hafa valdið dauða hans.

Högg eða spark hefði skilið eftir sig önnur merki

Í kjölfarið kom norskur yfirlæknir og prófessor í réttarlæknisfræði við Oslóarháskóla sem sagði þvert á móti að hann teldi að ólíklegt væri að högg eða spark hafi valdið áverkanum á miltanu. Í slíku tilfelli vænti hann að um það sæjust merki á húð eða mjúkvef undir henni. Ekki væri þó hægt að útiloka það. 

Taldi sérfræðingurinn líklegra að skaðann á miltanu hafi Sigurður hlotið við hjartahnoð þegar reynt var að bjarga lífi hans í 45 mínútur í fangelsinu. Hann vildi þó ekki taka undir spurningar verjenda sem gengu út á að mikil fíkniefnaneysla og slæmt ástand Sigurðar þegar hann kom í fangelsið hafi leitt til hjartaáfalls sem hafi dregið hann til dauða. Sagði réttarmeinafræðingurinn að hann teldi styrk efnanna sem Sigurði neytti ekki nægilegan til að hafa orðið honum að aldurtila.

Þegar verjandi Annþórs spurði hvort að sérfræðingurinn útilokaði að áverkarnir á milta Sigurðar hafi hlotist við fall í fangaklefanum ítrekaði hann það mat sitt að það hefði ekki gerst án annarra áverka.

Annar sérfróðra meðdómenda í málinu spurði sérfræðinginn hvað gæti valdið rofi á miltanu við endurlífgunartilraunir þar sem fyrir liggi að rifbein hafi ekki brotnað í Sigurði. Sagði norski fræðingurinn að þrýstingur hjartahnoðsins hefði getað valdið rofinu. Það hefði ekki valdið sömu ytri áverkum og högg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert