Innvortis blæðingar úr milta voru dánarorsök Sigurðar Hólm Sigurðssonar, fanga á Litla-Hrauni, árið 2012 og líklegast er að sljór ytri áverki hafi valdið þeim, að mati þýsks réttarmeinafræðings sem kom fyrir Héraðsdóm Suðurlands í dag. Hann telur útilokað að áverkarnir hafi komi til við endurlífgun.
Verjendur Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar sem ákærður eru fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar með því að veita honum högg eða spark hafa haldið þeim möguleika á lofti að rof á milta hans hafi getað komið til við fall í fangaklefa hans eða við endurlífgunartilraunir á honum. Báðir sakborningarnir neita sök í málinu.
Þýskur réttarmeinafræðingur sem bar vitni við aðalmeðferð málsins í dag var hins vegar afdráttarlaus um að hann teldi útilokað að endurlífgunartilraunir hafi getað valdið rofinu á milta Sigurðar. Hann hafi ekki verið með lífsmarki á tilraunirnar stóðu yfir í 45 mínútur. Tveir lítrar af blóði hafi verið í kviðarholi hans og útilokað hefði verið að skapa slíkt blóðflæði við endurlífgunartilraunirnar. Blóðmagnið sýni að hann hafi fengið áverkann á miltanu þegar hann var lifandi.
Milta hans hafi verið eðlilegt að öðru leyti en áverkinn á því. Engin efni hafi fundist í blóði hans sem hafi getað leitt til dauða hans og þá taldi réttarmeinafræðingur ekki mögulegt að hann hafi kafnað á ælu.
Taldi sérfræðingurinn að högg eða spark hafi getað valdið áverkanum á miltanu þó að dæmi séu um að fall geti valdið sambærilegum áverkum. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari í málinu, spurði hversu mikið fall þyrfti til að valda slíkum áverka. Það væri ólíklegt en þó ekki útilokað að Sigurður hafi getað fallið án þess að hljóta aðra áverka en á miltanu.
Sagðist réttarmeinafræðingurinn hafa gert um þúsund krufningar og hann hafi aldrei séð heilbrigt milta eins og í Sigurði með rifu af þessu tagi. Af því megi draga þá ályktun að hann hafi orðið fyrir ytri áverka.
Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, dró upp mynd af ástandi Sigurðar þegar hann kom í fangelsið. Hann hafi verið magur, búinn að vera í mikilli neyslu eiturlyfja að eigin sögn, honum hafi verið gefin lyf gegn fráhvörfum í fangelsinu án þess að læknir skoðaði hann nokkru sinni. Þar að auki hafi samfangi hans viðurkennt að hafa gefið honum efni sem er skylt morfíni sem hann hafi tekið skömmu fyrir dauða sinn. Spurði Sveinn hvort allir þessir samverkandi þættir hafi ekki getað valdið honum hjartastoppi.
Sérfræðingurinn sagði að ekkert í læknisfræði væri 100%. Hins vegar gæti hann sagt með líkindum sem nálguðust fullvissu að þetta hafi ekki getað valdið dauða Sigurðar. Niðurstöður eiturefnamælinga hafi ekki sýnt styrk efna yfir eitrunarmörkum og ekkert benti til þess að þol Sigurðar hafi verið minnkað gagnvart efnunum.
Verjandinn spurði vitnið einnig hvort að það teldi það eðlilegt að Sigurður hafi aldrei verið skoðaður af lækni við komuna í fangelsið í ljósi ástands síns. Það sagðist aðeins geta sagt að það teldist ekki eðlilegt í Þýskalandi. Sveinn tók fram að það teldist heldur ekki eðlilegt á Íslandi.
„En það gerðist samt,“ sagði hann.
Réttarmeinafræðingurinn var algerlega ósammála öðrum matsmanni í málinu að fíkniefnaneysla Sigurðar hafi getað leitt til dauða hans og að sjáanlegir áverkar hafi þurft að vera á húð eða mjúkvef ef Sigurði hefði verið veitt högg eða spark.