Tekist á um hvort samfangar beri vitni

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni.

Óvíst er hvort að málflutningur geti farið fram í máli Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar vegna dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni í dag. Saksóknari er andsnúinn því að verjendur kalli til nokkra samfanga tvímenningana sem vitni og er útlit fyrir að farið verið fram á úrskurð um það.

Aðalmeðferð málsins hélt áfram í dag. Annþór og Börkur báru vitni í gær ásamt fangavörðum, nokkrum föngum af Litla-Hrauni, sjúkraflutningamönnum, lækni og sérfræðingum í réttarsálfræði, kraftfræði og hljómburði. Í morgun kom svo þýskur réttarmeinafræðingur fyrir dóminn og sænskur sálfræðiprófessor gaf skýrslu í gegnum síma.

Fleiri sérfræðivitni koma fyrir dóminn nú eftir hádegið en mögulegt er að aðalmeðferðin stöðvist þá. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari í málinu, hefur látið skýrt í ljós að hann muni krefjast úrskurðar dómara um það hvort að verjendum Annþórs og Barkar sé heimilt að kalla til nokkra samfanga þeirra af Litla-Hrauni sem vitni. Á hvorn veginn sem úrskurður dómara fer gæti álitamálið endað á borði Hæstaréttar.

Verði sú raunin er ljóst að málflutningur saksóknara og verjenda getur ekki farið fram í dag.

Annþór og Börkur eru ákærðir í málinu fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar með því að veita honum högg eða spark í maí árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka