Í skýrslu um atferli Barkar Birgissonar og Annþórs Karlssonar voru hlutir eins og að Annþór hafi neitað að taka í hönd Sigurðar Hólm Sigurðssonar og Börkur hafi haft krosslagðar hendur metnir ógnandi. Annar höfundur skýrslunnar sagði verjanda aðspurður að vel gæti verið að Börkur ógnaði honum líka.
Gísli Guðjónsson og Jón Friðrik Sigurðsson, sérfræðingar í sálfræði, gerðu atferlisskýrslu um mat sitt á hegðun og atferli Annþórs og Barkar á upptökum úr öryggismyndavélum af Litla-Hrauni þegar þeir ræddu við Sigurð Hólm skömmu áður en hann lést í maí 2012. Tvímenningarnir eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða hans.
Báru þeir Gísli og Jón Friðrik meðal annars saman upptökur frá deginum fyrir dauða Sigurðar og af samskiptum Annþórs og Barkar við hann í eldhúsi á fangelsisganginum.
Þegar Gísli bar vitni fyrir dómnum varði hann skýrslu þeirra Jóns Friðriks og sagði hana faglega unna. Þeir hafi nýtt sérfræðiþekkingu sína til að leggja mat á atferli Annþórs og Barkar á upptökunum með þeim fyrirvara að þeir geti ekki fullyrt um hvað gerðist en skýrslan gefi vísbendingu um hvað hafi átt sér stað. Viðurkenndi Gísli þó að engin hefðbundin aðferðafræði væri til við mat af þessu tagi.
Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, spurði hvort að skýringar hans og Annþórs hefðu breytt einhverju um mat Gísla og Jóns Friðrik á upptökunum. Annþór bar í gær að hann hafi neitað að taka í hönd Sigurðar þar sem hann hefði þá reglu að taka ekki í hendur fíkniefnaneytenda í fangelsinu því þeir geymdu gjarnan efni í endaþarmi sínum. Börkur hafi hellt úr mjólkurglasi sem Sigurður drakk úr vegna þess að sá síðarnefndi hafi verið hættur að drekka úr því og hann hafi séð um eldhúsið á ganginum á þessum tíma.
Þá spurði Sveinn út í mat fræðimannanna á því að Börkur hafi verið með krosslagðar hendur þegar hann stóð hjá Sigurði á upptökunum. Spurði verjandinn hvort að Börkur væri þá að ógna sér þegar hann kæmi að heimsækja hann á Litla-Hraun því hann væri alltaf með krosslagðar hendur.
„Það getur vel verið að hann sé að ógna þér. Ég veit bara ekkert um það,“ svaraði Gísli.
Þegar Jón Friðrik bar vitni sagði hann einnig að lítill fræðilegur grunnur væri fyrir mati þeirra Gísla. Engu að síður megi sjá ákveðin atriði út úr gögnunum. Hann sagðist ekki gera ráð fyrir að skýringar Annþórs og Barkar hefði breytt mati þeirra á atferli þeirra á upptökunum. Það þjónaði ekki tilgangi að tala aðeins við annan aðila að málsatvikum þar sem Sigurður Hólm væri ekki til staðar til að bera um hvað gerðist.