Telur hjartastopp líklegast

Börkur (fjær) og Annþór í Héraðsdómi Suðurlands á föstudag.
Börkur (fjær) og Annþór í Héraðsdómi Suðurlands á föstudag. mbl.is

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar Birgissonar, segir að miðað við gögnin í dómsmáli gegn Berki og Annþóri Karlssyni sé það einhlítt að mikill vafi sé á því hvað hafi raunverulega gerst.

Þeim er gefið að sök að hafa banað samfanga sínum Sigurði Hólm Sigurðssyni á Litla-Hrauni fyrir tæpum fjórum árum með því að ganga í skrokk á honum. Talið er að áverkar á milta hafi dregið Sigurð til dauða. Aðalmeðferð málsins lauk í Héraðsdómi Suðurlands í dag. 

Fangar áður látist úr fíkniefnaneyslu

Sveinn telur líklegast að um hjartastopp hafi verið að ræða vegna fíkniefnaneyslu og að miltað hafi rofnað við endurlífgunartilraunir. „Þegar maður er búinn að neyta mikilla lyfja getur þetta gerst. Þetta er ekki eina dæmið um að fangar hafi látist úr fíkniefnaneyslu á Litla-Hrauni,“ segir hann.

„Mar sést alltaf undir húð þegar beint högg á sér stað sem getur valdið því að milta rofni. Í þessu máli var þetta mar ekki til staðar. Það bendir frekar til þess að þetta hafi gerst við endurlífgunartilraun.“

„Þarf ævintýralega nákvæmt högg“

Að mati Sveins er ákæran í málinu afar óljós og skrítin. „Það er ekkert hægt að merkja á henni hvað gerðist. Það þarf ævintýralega nákvæmt högg til að ná þessum árangri að rjúfa milta án þess að það sjáist á ytra byrðinu. Það hefði örugglega komið fram á innra byrðinu líka,“ segir hann.

Stefnt er á úrskurð í málinu innan fjögurra vikna. „Ég treysti því að dómurinn, þar af tveir læknismenntaðir einstaklingar, horfi á málið miðað við þau gögn sem liggja fyrir. Á þeim verður ekki hægt að byggja á einfaldan hátt að þarna hafi átt sér stað högg.“

Sérfræðingum bar ekki saman um orsakir

Sérfræðingum í réttarlækningum sem báru vitni í málinu á föstudag  bar ekki saman um orsakir áverka á milta sem talið er hafa dregið Sigurð til dauða. Norskur sérfræðingur taldi ólíklegt að högg eða spark hafi valdið áverkunum. Þýskur réttarmeinafræðingur sem krufði lík Sigurðar bar að líklegast hafi ytri áverki valdið skaðanum á milta Sigurðar og útilokaði að hann hafi getað komið til við endurlífgunartilraunir.

Íslenskur réttarmeinafræðingur sem starfar í Bandaríkjunum sem fenginn var til að fara yfir krufningarskýrsluna tók undir að dánarorsök Sigurðar hafi verið sú að honum hafi blætt út vegna rifu á milta sem hafi fyllt kviðarhol hans með tveimur lítrum af blóði. Rof sem kæmi á miltað við endurlífgunartilraunir þegar hann var ekki lengur með lífsmarki hafi ekki getað valdið slíkri blæðingu. Þá væri það að hans mati afar ólíklegt að Sigurður hafi fengið hjartaáfall og lyfin sem hann hafði neytt gætu ekki hafa valdið dauða hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert