Daryush Valizadeh sem kallar sig Roosh V, höfundur seríu kynlífsferða-handbóka hefur boðað til 165 funda í 43 löndum, þar á meðal á Íslandi á mánudaginn kemur. Meðal bóka í fyrrnefndri bókaröð Roosh er Bang Iceland: How to Sleep with Icelandic Women in Iceland.
Í bókinni taldi Roosh meðal annars upp 10 hluti sem karlmenn ættu að vita áður en ferðast er til Íslands. Á listanum sagði hann Ísland vera þorp stofnað af nauðgurum og að mjög auðvelt sé að sofa hjá íslenskum stúlkum ef þær eru drukknar og einangraðar.
Frétt mbl.is: Ísland er þorp stofnað af nauðgurum
Á síðu mótmælaviðburðar sem boðað hefur verið til á Facebook er Roosh kallaður „nauðgunarsinni“. Bent er á tilvitnanir í bækur hans þeirri staðhæfingu þeirrar fullyrðingar þar sem Roosh lýsir því m.a. í smáatriðum hvernig hann nauðgaði konu í Póllandi sem „hafði líkama fimleikamanns sem hafði ekki náð fyllilega fram yfir kynþroska.“
Athygli er vakin á því að tilvitnanirnar sem hér fylgja gætu vakið óhug.
„Ég náði henni á brjóstahaldarann og nærbuxurnar en hún hélt áfram að segja „Nei! Nei!,“ skrifar Roosh. Segist hann hafa sagt sjálfum sér á þeirri stundu að hún myndi ekki ganga á dyr án þess að hann hefði við hana samfarir. Hann segist hafa sætt sig við tilhugsunina um að vera læstur inni í pólsku fangelsi þannig að svo mætti verða. Í lýsingu á aðförum sínum segist hann hafa athafnað sig „eins og barnaníðingur.“
Í annarri lýsingu frá Póllandi segist Roosh hafa stundað kynlíf sem var afar kvalafullt fyrir konuna og hún hafi sagt „Nei, Roosh, nei!“ í það minnsta þrjátíu sinnum áður en hann kom getnaðarlim sínum í leggöng hennar.
„Hún kjökraði eins og særður hundur allan tímann en ég vildi fá fullnægingu svo ég var „næstum því þar“ í um tíu mínútur. Eftir kynlífið snökti hún í góða stund, talandi um að þetta væri synd í augum guðs.“
Einnig er vísað í lýsingu Roosh frá Íslandi þar sem hann segist hafa áttað sig á því á leiðinni heim til sín hversu dauðadrukkin konan sem hann hafði meðferðis var í raun.
„Í Bandaríkjunum hefði það að stunda kynlíf með henni verið nauðgun þar sem hún gat ekki veitt samþykki sitt lögum samkvæmt. Ég var edrú en ég get ekki sagt að mér hafi ekki staðið á sama eða að ég hafi hikað. Ég mun ekki réttlæta gjörðir mínar en að stunda kynlíf er það sem ég geri.“
Með orðum sínum viðurkennir Roosh að hafa gert sér grein fyrir því að samþykki konunnar fyrir samræði lægi ekki fyrir. Þar af leiðandi er augljóslega ekki um kynlíf þeirra á milli að ræða heldur nauðgun, hvort sem hann er í Bandaríkjunum eða á Íslandi.
Þá er vitnað í blogg Roosh um „Sex kennileiti góðrar nauðgunar“ þar sem hann segir nauðgunaratriði í kvikmyndinni 300 hafa verið lélegt. „Lykillinn að góðri nauðgunarsenu er að sjá stúlkuna fara úr því að hata það yfir í að elska það. Hún vill láta nauðga sér að nýju. Ég örvaðist ekki við þessa senu eins og ég geri vanalega þegar ég horfi á nauðganir.“
Roosh boðar fylgismenn sína til fundar á laugardaginn næstkomandi og setur upplýsingar um alla 165 fundarstaðina á heimasíðu sína. Hér á landi gerir hann ráð fyrir að þátttakendur mæti milli 20:00 og 20:20 á laugardag við styttuna af Leifi Eiríkssyni utan við Hallgrímskirkju næsta laugardag.
„Til að bera kennsl á ættbálkabræður ykkar, spyrjið eftirfarandi spurningar þann mann sem ykkur grunar að sé þar til að hittast: „Veistu hvar ég get fundið gæludýraverslun?“ Ef þú ert spurður að þessari spurningu, svaraðu með staðfestingunni: „Já, hún er hér.“ Þú getur þá kynnt þig og fengið upplýsingar um hvert skal haldið kl. 20:20.“
Þegar þetta er skrifað hafa 299 manns skráð sig til þátttöku á viðburðinn „Hugmyndafræði nauðgunarsinna er ekki velkomin á Íslandi“ sem ætlað er að mótmæla fundarboði Roosh og því sem hann stendur fyrir.
„Svona nokkuð viljum við ekki sjá á Íslandi og ætlum því að mæta á Hallgrímskirkjutorg á umræddum tíma. Sum okkar vilja mæta með skilti og skemmtilega fylgihluti meðan önnur okkar kjósa bara að mæta á svæðið og sýna með því að hugmyndafræði Roosh Vorek sé ekki velkomin á klakann,“ segir í lýsingu viðburðarins.
Í grein Roosh um „Algengar spurningar fyrir fundardaginn“ kemur fram að konur og samkynhneigðir karlar séu ekki velkomnar á viðburðinn, hann sé aðeins ætlaður gagnkynhneigðum körlum. Sem svar við spurningunni „Hvað ef klikkaðir femínistar mæta?“ ráðleggur Roosh þátttakendum að taka viðkomandi upp á myndband og senda honum svo þátttakendur geti rifið þær í sig eftir á. Þá mælist hann til þess að meðlimir hópsins fari í sitthvoru lagi, óbeina leið, að fundarstaðnum svo aðrir finni hann ekki.
„Ég mun þvinga fram tryllta hefnd gagnvart hverjum þeim sem storkar ykkur á almannafæri þennan dag (munið að taka þá upp). Megi sjötti febrúar þannig verða skýrt merki til allra um að við erum ekki að fara neitt.“
Í greininni kemur fram að fundurinn sé opinn fólki utan hvíta kynstofnsins. Ljóst er að margir lesendur Roosh eru þó ekki hlynntir fjölmenningu en einn þeirra bendir á í athugasemd við færsluna um staðsetningu fundanna að þeir fari fram sama dag og Pegida mótmæli sem hann hugðist taka þátt í. Pegida eru öfgasamtök sem berjast gegn fjölmenningu í Evrópu og þá sérstaklega flóttafólki.
Í lýsingu á því sem fram fer á fundum segir Roosh að þeir séu ætlaðir til þess að karlmannlegir karlmenn geti myndað með sér tengslanet sem geti verið mikilvægt, komi til þess að verja þurfi samfélög þeirra fyrir utanaðkomandi ógn.
„Ég heyri nóg af sögum frá Evrópu af körlum sem búa í löndum sem afró-íslamar eru að ráðast inn í, hvattir áfram af ríkisstjórnum þeirra. Það að hafa ættbálk heimamanna mun verða algjörlega nauðsynlegt til að standa af sér þá storma sem kunna að mæta ykkur í framtíðinni,“ segir Roosh í meðfylgjandi myndbandi.