Brotin mjög umfangsmikil og þaulskipulögð

Sigurjón Þ. Árnason fékk 18 mánaða dóm í dag. Það …
Sigurjón Þ. Árnason fékk 18 mánaða dóm í dag. Það bætist við 3,5 ár sem hann hafði áður fengið í Ímon-málinu. mbl.is/Þórður

Markaðsmisnotkunarbrotin sem fjórir fyrrum Landsbankamenn voru dæmdir fyrir í Hæstarétti í dag voru „mjög umfangsmikil, þaulskipulögð og stóðu yfir í langan tíma.” Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar. Staða Sigurjóns Árnasonar, fyrrum bankastjóra, veitti honum „yfirsýn yfir starfsemi verðbréfasviðsins og gátu hin umfangsmiklu kaup eigin fjárfestinga á hlutum í Landsbanka Íslands hf. eins og að þeim var staðið ekki farið fram án vilja hans og vitundar,“ segir þar jafnframt.

Gáfu eftirspurn og verð hlutabréfa ranglega eða misvísandi til kynna

Sig­ur­jón var dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi fyr­ir hlut sinn í málinu. Ívar Guðjóns­son fyrr­um for­stöðumaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans var dæmd­ur í 2 ára fang­elsi og Júlí­us S. Heiðars­son, fyrr­um starfsmaður eig­in fjár­fest­inga fékk 1 árs fang­elsi. Sindri Sveins­son, fyrr­um starfsmaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans fékk níu mánaða dóm.Allir dómarnir voru óskilorðsbundnir.

Í grunninn gengur málið út á að deild eigin fjárfestinga keypti mikið magn bréfa í bankanum sjálfum, en þau kaup náðu hámarki vikuna áður en bankinn var tekinn yfir. „Ekki leikur neinn vafi á að sá mikli fjöldi tilboða, sem ákærðu Júlíus og Sindri gerðu, og þau umfangsmiklu viðskipti, sem þeir áttu þátt í að koma á, gáfu eða voru í það minnsta líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega eða misvísandi til kynna. Með þessari háttsemi brutu þeir því af ásettu ráði og á refsiverðan hátt gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, enda verður slík háttsemi ekki skýrð með því að lögmætar ástæður hafi búið að baki henni ellegar hún verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Brotin ekki metin til fjár

Í dómnum segir að ekki sé hægt að meta brotin til fjárs, en þau hafi valdið víðtækum afleiðingum. „Brotin leiddu til alvarlegrar röskunar á verðbréfamarkaði með víðtækum afleiðingum fyrir fjármálamarkaðinn hér á landi og allan almenning, en tjónið, sem af þeim hlaust, verður ekki metið til fjár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka