Hæstiréttur dæmdi í dag hollenska konu, Mirjam Foekje van Twuijver, í 8 ára fangelsi fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum til landsins. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt hana í 11 ára fangelsi 8. október. Hæstiréttur vísar í dómi sínum til samstarfs konunnar við lögreglu við að upplýsa málið sem sé metið til refsilækkunar.
Hæstiréttur dæmdi ennfremur Atla Freyr Fjölnisson í 4 ára fengelsi fyrir að hafa veitt fíkniefnunum viðtöku en hann hafði áður verið dæmdur í 5 ára fangelsi í hérði fyrir að hafa tekið við efnunum hér á landi. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem þau Twuijver og Atli sættu á síðasta ári. Twuijver frá 4. apríl og Atli frá 8.-22. apríl. Hæstiréttur dæmdi þau ennfremur til að greiða helming málskostnaðar. Dómurinn héraðsdóms er þannig mildaður yfir þeim báðum en hvorugt þeirra var viðstatt uppkvaðningu dóms Hæstaréttar.
Van Twuijver kom ásamt dóttur sinni til landsins á föstudaginn langa á síðasta ári með flugi frá Amsterdam og áttu pantað flugfar til baka á mánudagsmorgni. Alls voru þær mæðgur með samtals 9.053,55 g af amfetamíni að 69 til 70% styrkleika, 194,81 g af kókaíni að 64% styrkleika og 10.027,25 g af MDMA, að 78% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni, falin í tveimur ferðatöskum.