Hæstiréttur: Brotið á rétti ákærðu

Sigurjón Þ. Árnason var meðal þeirra sem hlutu dóm í …
Sigurjón Þ. Árnason var meðal þeirra sem hlutu dóm í dag. Hæstiréttur segir samt sem áður að brotið hafi verið á rétti ákærðu í málinu um réttláta málsmeðferð. Mbl.is/ Þórður Arnar Þórðarson

Með því að hlusta á símtöl ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans skömmu eftir að þeir höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem þeir höfðu réttarstöðu sakborninga og var því óskylt að svara spurningum um refsiverða hegðun sem þeim var gefið að sök var brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Þetta segir í dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp í dag.

Sig­ur­jón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans var dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi fyr­ir hlut sinn í mál­inu. Ívar Guðjóns­son fyrr­um for­stöðumaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans var dæmd­ur í 2 ára fang­elsi og Júlí­us S. Heiðars­son, fyrr­um starfsmaður eig­in fjár­fest­inga fékk 1 árs fang­elsi. Sindri Sveins­son, fyrr­um starfsmaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans fékk níu mánaða dóm.All­ir dóm­arn­ir voru óskil­orðsbundn­ir.

Mikið hefur verið deilt um hleranir embættis sérstaks saksóknara í þessu máli sem og öðrum hrunmálum, en ákærðu í þeim hafa meðal annars gagnrýnt harðlega að tekin hafi verið upp símtöl þeirra við verjendur. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að slíkar upptökur hafi ekki verið lagðar fram í málinu og tekur þar af leiðandi ekki frekari afstöðu til þess hlutar.

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari málsins.
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari málsins. mbl.is/Eggert

Aftur á móti eru hleranir lögreglu á símum ákærðu í kjölfar yfirheyrslu þeirra hjá lögreglu gagnrýndar. Segir í dómnum að því verði þau símtöl ekki notuð sem sönnunargögn í málinu.  „Með því að hlusta á símtöl ákærðu við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, var brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Því verður horft framhjá upptökunum við úrlausn málsins,“ segir í dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka