Heildardómur fyrir markaðsmisnotkunarmálin 5 ár

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Þórður

Heildardómur yfir Sigurjóni Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, í báðum markaðsmisnotkunarmálunum sem dæmt hefur verið í í Hæstarétti nemur samtals 5 ára fangelsi. Þetta var staðfest í Hæstarétti í dag, en þá var 12 mánaða fangelsisdómur héraðsdóms í markaðsmisnotkunarmáli bankans þyngdur í 18 mánuði. Þessi hluti málsins er svokallaður kauphluti málins, en í söluhlutanum, svokölluðu Ímon-máli, hafði Sigurjón áður fengið þriggja og hálfs árs dóm.

Saksóknari setti málin upphaflega fram sem eitt mál, markaðsmisnotkunarmál, en það sama var upp á teningnum varðandi markaðsmisnotkunarmál Kaupþings. Héraðsdómur ákvað aftur á móti að skipta málinu upp í sölu- og kauphluta í Landsbankamálinu á meðan Kaupþingsmálið var rekið áfram sem eitt mál.

Úr varð að söluhlutinn – Ímon-málið, var rekinn sérstaklega fyrir dómstólum og fékkst niðurstaða Hæstaréttar í því máli í október á síðasta ári. Auk Sigurjóns voru þau Sig­ríður Elín Sig­fús­dótt­ir, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans og Steinþór Gunn­ars­son fyrr­ver­andi for­stöðumaður verðbréfamiðlun­ar Lands­bank­ans dæmd sek í málinu.

Í dag á kauphlið málsins voru ásamt Sigurjóni þrír fyrrum samstarfsmenn hans dæmdir sekir. Ívar Guðjóns­son fyrr­um for­stöðumaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans var dæmd­ur í 2 ára fang­elsi og Júlí­us S. Heiðars­son, fyrr­um starfsmaður eig­in fjár­fest­inga fékk 1 árs fang­elsi og Sindri Sveins­son, fyrr­um starfsmaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans fékk níu mánaða dóm. Allir dómarnir voru óskilorðsbundnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert