Ungir jafnaðarmenn segja að horfast verði í augu við að skilaboð Samfylkingarinnar séu ekki að ná eyrum kjósenda og leita þurfi allra leiða til að byggja upp trúverðugleika flokksins á ný. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar UJ.
„Ungir jafnaðarmenn taka undir þá kröfu sem upp er komin að formannskjör í Samfylkingunni - jafnaðarmannaflokki Íslands fari fram strax nú í vor, ekki síðar en í maí. Horfast verður í augu við að skilaboð Samfylkingarinnar eru ekki að ná eyrum kjósenda og leita þarf allra leiða til að byggja upp trúverðugleika flokksins á ný. Mikilvægt er því á þessum tímapunkti að skerpa á skilaboðum flokksins og veita forystu skýrt umboð til að leiða flokkinn áfram í baráttu fyrir betra samfélagi í anda frelsis, jafnréttis og samstöðu.
Ungir jafnaðarmenn telja að nú sé svo komið að ekki sé hægt að bíða lengur eftir að ástandið batni heldur þurfi að leita til flokksfélaga og eiga við þá opið og lýðræðislegt samtal um framtíð flokksins. Íslendingar eiga skilið sterkan jafnaðarmannaflokk og Samfylkingin á að sinna því hlutverki til lengri tíma,“ segir í ályktuninni.