Landsfundur óraunhæfur á þessu ári

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Eggert Jóhannesson

Lög Samfylkingarinnar gera það að verkum að ekki er mögulegt að flýta landsfundi flokksins og halda hann í vor eins og kallað hefur verið eftir. Ekki er heldur mögulegt að halda reglulegan landsfund á þessu ári af þeim sökum. Þetta segir Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

Kröfur hafa verið settar fram undanfarna daga bæði úr röðum þingmanna Samfylkingarinnar og einstökum aðildarfélögum flokksins um að landsfundi verði flýtt svo hægt verði að kjósa nýja forystu. Vísað hefur verið í slakt gengi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafa meðal annars kallað eftir því að landsfundi verði flýtt sem og Samfylkingarfélagið á Akureyri og Ungir jafnaðarmenn.

Málið komst í hámæli fyrr í vikunni eftir að Ólína kallaði eftir því á Facebook-síðu Samfylkingarinnar að landsfundi flokksins yrði flýtt. Þar sagði hún meðal annars: „Flokkurinn mun ekki lifa til haustsins með þessu áframhaldi. Ég legg til að landsfundi og þar með formannskjöri verði flýtt fram í maí. Staðan er óþolandi fyrir alla sem málið varðar og nú er mál að linni.“ Ungir jafnaðarmenn sendu einnig frá sér ályktun þar sem kallað var eftir formannskjöri strax í vor og ekki síðar en í maí.

Þarf að boða landsfund með 16 vikna fyrirvara

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar fundaði í síðustu viku um málið á reglulegum fundi sínum og hyggst taka ákvörðun um framhald þess á fundi sínum á miðvikudaginn í næstu viku eftir að hafa fengið álit lögfróðra manna á því hvaða möguleikar séu í stöðunni innan laga flokksins. Sema segir tímabært að botn sé fenginn í málið og það standi til.

Samkvæmt lögum Samfylkingarinnar þarf að boða landsfund bréflega með minnst 16 vikna fyrirvara. Ef hann væri boðaður í dag gæti hann því ekki farið fram fyrr en í maí. Hins vegar verður landsfundur samkvæmt lögunum að fara fram á tímabilinu 1. mars til 30. apríl eða 1. október til 30. nóvember. Framkvæmdastjórn er þó heimilt samkvæmt lögunum að boða til landsfundar á öðrum tímum ef nauðsyn krefur. Til dæmis vegna þingrofs.

Hins vegar segir í lögum Samfylkingarinnar að landsfund flokksins skuli halda annað hvert ár. Síðasti landsfundur var haldinn í mars á síðasta ári og því er ekki hægt að halda næsta reglulega landsfund fyrr en á næsta ári. Þessu getur framkvæmdastjórnin ekki fallið frá. Heimilt er ennfremur samkvæmt lögunum að halda aukalandsfund en óheimilt hins vegar að kjósa nýja forystu á slíkum fundi eða breyta lögum flokksins.

Sema segir að allt þetta geri það að verkum að ekki sé hægt að halda reglulegan landsfund á þessu ári. Hún bendir hins vegar á að gert sé ráð fyrir að formaður sé kjörinn í allsherjarkosningu fyrir landsfund sé farið fram á það. Ekki komi hins vegar fram í lögunum hvenær slík kosning eigi að fara fram eftir að landsfundur hefur verið boðaður. Þetta sé eitt af því sem sé í skoðun hjá framkvæmdastjórninni.

Stjórn Samfylkingarinnar fundaði í dag þar sem rætt var um stöðu flokksins en engar ákvarðanir voru teknar þar.

Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.
Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka