Samstarfið til refsilækkunar

mbl.is/Hjörtur

Fram kemur í dómi Hæstaréttar yfir Mirjam Foekje van Twuijver, sem var í dag dæmd í átta ára fangelsi fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning, að við ákvörðun refsingar hafi fyrst og fremst verið litið til þess að um hafi verið að ræða fádæma mikið magn sterkra fíkniefna sem hún hafi flutt til landsins að yfirlögðu ráði. Um var að ræða mikið magn amfetamíns, kókaíns og MDMA.

„Þá var einnig höfð hliðsjón af því að hlutverk hennar var einvörðungu í því fólgið að koma efnunum hingað til lands og fá þau öðrum í hendur. Til refsilækkunar kom að hún bauð lögreglu aðstoð og tók síðan að undirlagi hennar þátt í aðgerð til að upplýsa málið frekar,“ segir ennfremur í dóminum. Twuijver hafði áður verið dæmd í 11 ára fangelsi í héraði.

Twuijver játaði að hafa veitt fíkniefnunum viðtöku í Hollandi og flutt þau til Íslands en neitaði því að hafa vitað að fíkniefni væru einnig í tösku dóttur hennar sem var með í för. Hæstiréttur telur hafið yfir skynsamlegan vafa, með hliðsjón af hinu mikla magni fíkniefna að hún hafi vitað, eða að minnsta kosti hlotið að gera sér grein fyrir því, að taska dóttur hennar hafi haft að geyma nokkurn veginn sama magn fíkniefna og hennar eigin taska.

Þá segir að við ákvörðun refsingar Atla Freys Fjölnissonar, sem dæmdur var í fjögurra ára fangelsi fyrir að veita fíkniefnunum viðtöku, hafi verið litið til þess að þótt hlutur hans í flutningi efnanna á áfangastað hefði verið mun veigaminni en Twuijvers væri brot hans stórfellt vegna hins mikla magns sterkra fíkniefna. Atli neitaði að hafa vitað að fíkniefni væru í töskunum en Hæstiréttur telur hafi yfir allan vafa að honum hafi mátt vera ljóst að hann væri að leggja fíkniefnainnflutningi lið og að hann hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvaða efni um væri að ræða og í hvaða magni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert