Dagur Sigurðsson er einn mest umtalaði maður lýðveldisins eftir óvæntan en sannfærandi sigur Þjóðverja á EM í handbolta. Sú velgengni sem Dagur hefur notið kemur engum á óvart sem þekkir til hans.
Nánustu ættingjar og vinir kalla hann Dadda, strákinn úr Efstasundi í Reykjavík sem hefur þjálfað þýska landsliðið í handbolta síðustu misseri. Hann var ráðinn í starfið eftir glæsilegan árangur sem þjálfari félagsliða í Japan, Austurríki og Þýskalandi sem og landsliðs Austurríkis.
Viðmælendur blaðamanns eru sammála um að Dagur Sigurðsson sé afar heilsteyptur maður með mjög ríka réttlætiskennd. Snemma kom í ljós að hann er óvenjuhæfur leiðtogi, félagslega sterkur og óhræddur að fara ótroðnar slóðir.
Dagur hefur mjög sterka nærveru. Nokkrir nefndu það. „Það fer ekki framhjá neinum þegar hann gengur í salinn,“ segir gamall vinur. Hann er mjög skapmikill og þolir til dæmis ekki að tapa, sem reyndist honum erfitt á yngri árum – ekki síst þegar honum fannst dómarar óréttlátir. Átti þá til að gráta hástöfum. „Það var stundum eins og hann hefði misst nákominn ættingja,“ segir samherji í yngri flokkum Vals.
Landsliðsþjálfari Þýskalands er fæddur 3. apríl 1973 og fagnar því 43. afmælisdeginum á árinu. Foreldrar hans voru báðir miklar íþróttakempur; Sigurður Dagsson stóð í marki knattspyrnuliðs Vals og tók á sínum tíma þátt í 18 landsleikjum, þar af tveimur sem fyrirliði. Ragnheiður Lárusdóttir Blöndal gerði garðinn frægan með handboltaliði Vals og varð margfaldur meistari.
Líka frábær í fótbolta
Dagur lék með drengjalandsliðum Íslands bæði í handbolta og fótbolta. Ýmsir telja hann hafa verið betri sem fótboltamann en hann taldi sig eiga meiri möguleika í handboltanum, skv. gömlu viðtali. „Það hafði einnig áhrif á ákvörðun mína að Lárus bróðir valdi knattspyrnuna eins og pabbi og þá varð ég að fara í handboltann eins og mamma!“ sagði Dagur í Morgunblaðinu árið 1992, þá 19 ára nemi í Verzlunarskóla Íslands og löngu orðinn leikstjórnandi meistaraflokksliðs Vals.
Lárus bróðir Dags og Óskar Bjarni Óskarsson, handboltaþjálfari og æskuvinur hans, segjast báðir hafa reiknað með að Dagur snéri sér að fótboltanum þegar hann þurfti að velja á milli greinanna tveggja.
„Hann var yfirburðamaður í handbolta í yngri flokkunum en líka frábær í fótbolta sem miðvörður eða aftasti miðjumaður. Hann hafði svo mikla yfirsýn og leikskilning. Mér fannst alltaf synd að hann varð ekki fótboltamaður en þarf hugsanlega að fara að draga það til baka!“ segir Lárus.
Móðir Dags telur að hann hafi valið handboltann vegna félagsskaparins. Óskar segir handboltahópinn hafa verið einstakan. „Þetta var hópur nörda héðan og þaðan, margir úr Valshverfinu en Dagur kom úr Langholtsskóla og Óli Stef. úr Hagaskóla. Dagur var leiðtoginn og við fylgdum honum í einu og öllu,“ segir Óskar Bjarni. „Hann var mesti töffarinn en alltaf heill og mjög flottur íþróttamaður.“
„Fer bara seinna á Ólympíuleika“
Allir eru sammála um að Dagur sé mikil félagsvera, þó að hann sé líka dulur og þyki mjög gott að vera utan sviðsljóssins. Hann er vinmargur og vinir hans eru úr ýmsum áttum.
Þegar Dagur og fjölskylda koma heim í júní ár hvert og dvelja í mánuð, er hver einasti dagur skipulagður, að sögn Jóns Halldórssonar, vinar hans úr Val, sem titlaður er forseti Urriðans, veiðifélags sem þeir félagar stofnuðu á sínum tíma. Dagur er líka í spilaklúbbnum Þresti með Óskari Bjarna og fleirum.
„Við þekktumst úr yngri flokkum Vals þó hann sé þremur árum yngri en ég en stóra skrefið í okkar vináttu stigum við sumarið 1992, þegar Dagur var 19 ára,“ sagði Jón við blaðamann. „Ég hafði áður farið til Bandaríkjanna og unnið þar í sumarbúðum og um jólin 1991, þegar við unnum í jólatréssölu í Valsheimilinu, sagði ég honum frá hvað það hefði verið rosalega skemmtilegt og við ákváðum fljótlega að fara út sumarið eftir. Tveimur dögum áður en við fórum hringdi svo Þorbergur Aðalsteinsson landsliðsþjálfari og kallaði í Dag í æfingahóp liðsins fyrir Ólympíuleikana í Barcelona. Það hljómaði að sjálfsögðu spennandi en það lýsir karakter Dags vel að hann stóð á sínu: Nei, ég ætla með Nonna til Ameríku. Fer bara seinna á Ólympíuleika. Hann þorir að fara eigin leiðir.“
Urriðinn var stofnaður eftir sumarið í Bandaríkjunum og hefur því verið við lýði í 24 ár. „Dagur er að sjálfsögðu leiðtogi í þeim hópi eins og öðrum og saga félagsskaparins er til í lögum og textum sem hann hefur samið.“
Jón segir að fyrst og fremst sé Dagur þó mjög traustur vinur og skemmtilegur maður, sem þorir að sigla á móti straumnum.
„Hann er með risastórt hjarta og þolir ekki óréttlæti. Er litríkur, með sterkar skoðanir og bakkar helst ekki með þær. Er mjög fastur fyrir og fylgir sinni hugmyndafræði sama hvað gengur á því hann trúir alltaf á það sem hann er að gera. Við erum saman með stöng í veiðifélaginu og herbergisfélagar og stundum eins og hjón; tökumst á, en förum aldrei að sofa ósáttir. Stundum hefur þurft að ræða málin fyrir svefninn og þó að við séum ekki sammála situr aldrei neitt eftir.“
Margir nefna Ingibjörgu Pálmadóttur, konu Dags, í sömu andrá. Þau séu í raun eitt; hafi verið saman í bekk í grunnskóla og kærustupar frá unglingsaldri. „Dagur var ekkert að flækja málin heldur náði sér í kærustu í þarnæsta húsi í Efstasundinu,“ sagði einn vinur hans. „Þau eru frábær saman og miklir vinir vina sinna. Ef eitthvað bjátar á hjá einhverjum eru þau fyrst til að hafa samband.“
Dagur til Berlínar: „Ég vil ráða þig!“
Robert Hanning, framkvæmdastjóri Fuchse Berlin og einn varaforseta þýska handboltasambandsins, ber ábyrgð á því að Dagur er þjálfari í Þýskalandi.
Þegar forráðamenn Fuchse ákváðu fyrir nokkrum árum að hefja alvöru uppbyggingu segist Hanning hafa viljað ráða þjálfara frá Norðurlöndunum. „Ég vildi fá einhvern sem skildi leikinn vel, helst einhvern sem hefði verið góður miðjumaður sem keppandi,“ segir Hanning við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. Hann velti þó fyrir sér öllum helstu þjálfurum heims þar til sex voru á listanum. Hinn íslenski landsliðsþjálfari Austurríkis var einn þeirra...
„Ég hringdi í Dag, sendi honum myndband og flaug svo til Íslands. Á leiðinni af flugvellinum að heimili hans ræddum við um handbolta, um Fuchse og hvað þyrfti að gera til að búa til gott lið. Ég sagði fljótlega við Dag: þú getur í raun keyrt mig strax aftur út á flugvöll. Við þurfum ekki að ræða nánar saman því ég ætla að ráða þig!“
Nokkrum árum síðar, eftir frábært gengi Fuchse, var Hanning svo maðurinn á bak við það að Dagur var ráðinn landsliðsþjálfari Þýskalands.
Ítarleg umfjöllun um Dag Sigurðsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins