Íslensk tunga stendur sem hindrun í vegi fyrir mörgum þeim sem vilja ekki skilgreina sig sem annað hvort karlkyns eða kvenkyns. Þetta segir Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands í samtali við mbl.is.
Þorgerður flutti erindi á fjölmenningarráðstefnu Háskóla Íslands sem fram fór fyrr í dag, þar sem hún vék að því hvernig kynjatvíhyggja íslenskunnar og hið opinbera regluverk um tungumálið sníði fólki þröngan stakk, sem gerir sjálfstjáningu og sjálfsmyndir transfólks enn flóknari en ella.
Að hennar sögn er Ísland komið í hóp þeirra landa sem fremst standa varðandi réttindi transfólks. Baráttuhreyfingar hinsegin- og transfólks eigi margt sameiginlegt á alþjóðavísu í gagnrýni sinni á hið gagnkynhneigða sís-kynja regluveldi.
Á Íslandi bætist þó mikilvægur þáttur við flókið samhengi og tilveru transfólks. Íslenska tungan, kynjatvíhyggja hennar og hugmyndir Íslendinga um varðveislu tungunnar.
„Hér er opinbert heilbrigðiskerfi og fólk sem fer í kynleiðréttingu fær hana greidda af hinu opinbera. Þar felst því kannski ekki mesta hindrunin. En það sem hefur verið eitt helsta baráttumál transfólks lengi vel er nafnbreyting. Áður fyrr gerðu lögin ráð fyrir því að það væri ekki hægt að breyta um nafn fyrr en búið væri að fara í kynleiðréttingu,“ segir Þorgerður.
Frétt mbl.is: Trans og intersex njóta ekki verndar
Með tilkomu nýrra laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda segir hún að landslagið hafi breyst til hins betra.
„Nú getur fólk farið og fengið nafnbreytingu eftir að hafa fengið svokallaða sjúkdómsgreiningu, eða staðfestingu hjá sérfræðinefnd um kynáttunarvanda. Þá þurfa þau að fara í gegnum greiningu og það sem kallast viðurkennd meðferð auk þess að vera í gagnstæðu kynhlutverki í að minnsta kosti eitt ár.“
„Kynjatvíhyggja tungumálsins gerir transfólki einkar erfitt um vik. Íslenskan er mjög kynjað tungumál og fornöfnin eru mjög niðurnjörvandi, sem veitir fólki með óhefðbundna kynvitund mjög lítið rými. Hvað er til dæmis átt við með gagnstæðu kynhlutverki?“ spyr hún og vísar þar til texta nýrra laga um einstaklinga með kynáttunarvanda.
„Þar er algjörlega gert ráð fyrir tvíhyggju. Það er eitthvað eitt og svo er eitthvað gagnstætt.“
Ítarleg umfjöllun mbl.is um fornafnið hán: Það kýs enginn að vera kallaður „það“
Hreintungustefnuna á Íslandi segir hún vera mikla í bæði alþjóðlegum og norrænum samanburði.
„Hún er hluti af sjálfstæðisbaráttu og viðleitni Íslendinga í þeim efnum. Íslensk málnefnd er sett á laggirnar árið 1964 á þeim tíma sem vera hersins þótti ógn við íslenska menningu og tungu. Sjálfsmynd Íslendinga er þannig samofin tungumálinu og því má að einhverju leyti segja að veruleiki transfólks sé ákveðin ögrun við þessa þjóðernislegu sjálfsmynd.“
Vandamálið sé þá enn ýktara þegar transfólk eigi uppruna sinn í öðrum löndum.
„Einn viðmælendanna er af erlendum uppruna og hann finnur rækilega fyrir þessu. Í raun segir hann íslenskuna vera svo kynjaða að það sé aldrei hægt að komast frá því. Kynjatvíhyggjan er þarna alltaf, alls staðar.“
Til að berjast gegn kerfinu segir Þorgerður að fólk notist við nokkurs konar taktíska hlýðni og andóf samtímis.
„Það fer í svokallaða sjúkdómsgreiningu, því hún er lykillinn að heilbrigðiskerfinu, en á sama tíma höggvir það í sprungurnar til að skapa rými fyrir sig. Fólk velur ýmsar leiðir til þessa.
Sumt velur sér kynhlutlaus nöfn og svo er fólk sem notast bæði við kvenmanns- og karlmannsnafn og talar um sjálft sig sem bæði hún og hann, jafnvel í sama viðtalinu. Segja þau við mig að þau vilji geta verið „hún“ einn daginn og „hann“ ef þeim líði þannig næsta dag. Þannig reynir flæðigerva fólk að brjótast undan þessari tvíhyggju.“
Frétt mbl.is: Elsku bur, ég er vífguma og eikynhneigð
Þorgerður kynnti einnig niðurstöður rannsóknar sem hún hefur unnið að í samstarfi við Jyl Josephson, prófessor í stjórnmálafræði við Rutgers-háskóla í New Jersey. Við rannsóknina ræddu þær við átta transmanneskjur, sem sumar voru í miðju kynleiðréttingarferli, um hvernig tungumálið setti þeim skorður.
„Þær þurfa að fella sig inn í þessa kynjatvíhyggju og svo er tungumálið alveg annar kapítuli. Bæði er fólk þvingað inn í mjög kynjuð nöfn, þó þú megir nú vera sonur eða dóttir móður þinnar þá verðurðu ennþá að vera sonur eða dóttir,“ segir hún og tekur dæmi:
„Orðið „maður“ á íslensku er sjálfgildi fyrir karlmann nema annað sé tekið fram eða þegar fólk vísar í sjálft sig í þriðju persónu. En ef við tökum dæmi um einstakling sem vill ekki skilgreina sig. Getur hann eða hún sagt „rosalega er maður þreytt“ eða „mikið er maður svangt“? Ef manneskjan fer hefðbundnu leiðina þá er hún strax búin að karlgera sig.“