Gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem eru grunaðir um að hafa framið vopnað rán í útibúi Landsbankans 30. desember síðastliðinn var í dag framlengt þar til dómur gengur en ekki lengur en til 7. mars. Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Að sögn Friðriks gengur rannsókn málsins vel.
Lögreglu barst tilkynning um ránið klukkan 13.22 en mennirnir komust undan með óverulega fjármuni sem fundust næsta dag. Lögreglan hóf í kjölfarið umfangsmikla leit að mönnunum, m.a. í Öskjuhlíð. Annar maðurinn var handtekinn aðfaranótt 31. desember en hinn gaf sig fram við lögreglu eftir að lýst var eftir honum.
Mennirnir tveir hafa báðir áður komið við sögu hjá lögreglu. Þeir hafa báðir játað aðild sína að málinu.