Stofnun múslima á Íslandi hefur krafist þess að Menningarsetur múslima á Íslandi fjarlægi skilti sem er framan á Ýmishúsinu sem setrið leigir af Stofnun múslima á Íslandi. Deilan hefur staðið yfir í rúmt ár og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.
Að sögn Gísla Kr. Björnssonar, lögmanns, sem fer með málið fyrir hönd Stofnunar múslima, gefur skiltið til kynna að moska sé í húsinu og það samræmist ekki reglum Stofnunar múslima, sem er ekki trúfélag. Félagið hafi aldrei heimilað uppsetningu þess.
Stofnun múslima óskaði eftir því að skiltið yrði fjarlægt en Menningarsetur múslima varð ekki við þeirri ósk. Þá var verktaki sendur á staðinn til að fjarlægja skiltið en var „hrakinn í burtu“, að sögn Gísla.
„Það er ljóst að þarna eru á ferðinni tvö félög sem eiga ekki samleið,“ segir hann.
Stofnun múslima fer fram á svokallaða aðfararheimild, sem þýðir að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lætur fjarlægja skiltið ef félagið vinnur málið.
Stofnun múslima á Íslandi og Menningarsetur múslima hafa áður átt í deilum. Stutt er síðan Menningarsetur múslima og Félag múslima mótmæli fyrir utan Grand Hótel þar sem Stofnun múslima fundaði.
Félögin tvö kröfðust þess að fá að vita hvað varð um þá rúmlega einu milljón dollara sem Sádí-Arabar lögðu fram til byggingar mosku á Íslandi. Hvorki Menningarsetrið né Félag múslima hafa fengið peningana en moska síðarnefnda félagsins á að rísa í Sogamýri.
Uppfært kl. 17:20
Salmann Tamimi, formaður Félags múslima, segir að meðlimir félagsins hafi ekki tekið þátt í mótmælunum fyrir utan Grand Hótel.