Sérstaklega slæmt í ljósi einokunarstöðu

Breytingin á gjaldskrá mun taka gildi 1. apríl næstkomandi.
Breytingin á gjaldskrá mun taka gildi 1. apríl næstkomandi. Mynd/Isavia

Hækkun Isavia á bílastæðagjöldum um 32-117% er gríðarlega mikil og gæti skapað fordæmi fyrir aðra þjónustuaðila á landinu til mikilla verðhækkana. Þá er ástæða hækkunarinnar alveg ný af nálinni og ekki rök sem er hægt að gefa mikið fyrir. Þetta segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna í samtali við mbl.is, en hann telur hækkunina sérstaklega slæma í ljósi einokunarstöðu fyrirtækisins.

Ekki áður heyrt svona röksemdafærslu

Eins og greint var frá í morgun mun hækkunin bæði ná til skammtímastæða og langtímastæða við flugvöllinn, en Isavia gaf út að ástæða hækkunarinnar væri aukinn fjöldi farþega um völlinn og nauðsyn þess að stækka bílastæðin. Eru framkvæmdir við ný stæði þegar hafnar.

Jóhannes segir að með auknum fjölda farþega héldi hann að tekjustofn bílastæðanna myndi stækka og því myndu fylgja auknar tekjur. Það að hækka þyrfti gjöld fyrirfram til að eiga fyrir fjárfestingum væri röksemdafærsla sem hann hefði ekki heyrt áður og gæfi ekki mikið fyrir.

Fyrirtæki í einokunaraðstöðu sem hækkar verð mikið

Segir hann að aukinn fjöldi stæða sem eigi að byggja eigi að geta staðið undir sér og því eigi ekki að koma til hækkana núna til að fjármagna þær fyrirfram. „Nú á að stækka flugstöðina. Á að taka aukagjald fyrir að fara inn í hana núna út af því?“ segir Jóhannes og bætir við: „Það væri jafn vitlaust og þessi hækkun á bílastæðunum.“

Jóhannes telur að hækkanir sem þessar geti sett slæm fordæmi fyrir önnur þjónustufyrirtæki. Þau geti byrjað að vísa í þessa hækkun ef þau hækki sjálf hjá sér verð. „Þarna gengur fyrirtæki í einokunarstöðu fram fyrir skjöldu og hækkar gríðarlega mikið. Við hvetjum Isavia til að endurskoða þessa ákvörðun því það er slæmt þegar eitt fyrirtæki með einokun gengur fram með þessum hætti,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Mikilli uppbyggingu fylgja miklar fjárfestingar

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að stefna fyrirtækisins sé að hver þjónustuþáttur standi undir sér. Nú hafi verið komið að því að fjölga stæðum samhliða mikilli uppbyggingu og það hafi verið talið eðlilegast að hækka bílastæðagjöldin til að mæta kostnaði við fjölgun stæða. Aðspurður út í hvort svona mikil hækkun á einu bretti sendi slæm skilaboð út á markaðinn segir Guðni að mikilli uppbyggingu fylgi miklar fjárfestingar sem þurfi að fjármagna og að forsvarsmönnum Isavia hafi þótt eðlilegast að hækka þennan þjónustuþátt svo hann myndi standa undir sér.

Ódýrara en á Norðurlöndunum

Segir hann að þegar horft sé til flugvalla á Norðurlöndunum séu bílastæðagjöld enn ódýrust á Íslandi, en skammtímastæði í Helsinki og Kaupmannahöfn séu á yfir 800 krónur á klukkustundina og í Ósló og Stokkhólmi sé verðið yfir 1.000 krónur fyrir sama tíma

Aðspurður hvort samanburðurinn sé réttmætur í ljósi mismunandi almenningssamgangna á milli flugvalla segir hann að samgöngur milli höfuðborgarinnar og flugvallarins séu mjög góðar og tíðar. Þá sé ferðatíminn með bíl og rútu álíka mikill, eða um 45 mínútur frá BSÍ. „Við teljum samanburðinn við þessar stöðvar eðlilegan,“ segir Guðni.

Verð fyrir starfsmenn hækkar 24-falt

Það er ekki bara gjald almennra farþega sem mun hækka, því samhliða breytingunni mun gjald fyrir starfsmenn flugstöðvarinnar hækka úr 1.000 krónum á ári upp í 2.000 á mánuði, eða sem nemur 24.000 krónum á ári. Er það 24-földun. Guðni segir að áður hafi starfsmenn í stöðinni aðeins greitt fyrir aðgangskort. Núna sé horft til þess að hefja gjaldtöku á starfsmenn eins og aðra sem komi í flugstöðina.

Guðni staðfestir að Isavia muni greiða gjaldið fyrir eigin starfsmenn, en að rekstraraðilar verði að ákveða hvernig þeir muni haga þessum málum. Í heild eru 5.000 aðgangskort að flugvellinum í notkun. Starfsmenn Isavia eru um 500 talsins og þá eru einhverjir starfsmenn í austurhluta vallarins þar sem áður var aðstaða hersins. Sagðist Guðni ekki geta staðfest þann fjölda starfsmanna annarra rekstraraðila sem hækkunin nær til, en að það séu allavega 3.000 manns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert