Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðni Ólafs Ólafssonar um endurupptöku Al Thani-málsins. Hæstiréttur dæmdi í fyrra Ólaf í fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar fyrir markaðsmisnotkun.
„Það eru Ólafi Ólafssyni og fjölskyldu veruleg vonbrigði að endurupptökunefnd hefur hafnað beiðni hans um endurupptöku Al Thani málsins. Það er grundvallaratriði þegar einstaklingur er dæmdur í fangelsi að ekki sé ástæða til að véfengja hæfi dómara og að niðurstaðan byggi á réttu mati á gögnum málsins,“ segir í yfirlýsingu sem hefur verið send á fjölmiðla vegna málsisins.
Þar segir ennfremur, að í beiðni Ólafs um endurupptöku málsins hafi verið færð ítarleg rök fyrir því að verulegur líkur væru á að í dómi Hæstaréttar hefðu mikilvæg sönnunargögn verið rangt metin.
„Í dóminum hafði símtal tveggja mann þótt sýna að Ólafur hafi átt að njóta hlutdeildar í hagnaði af Al Thani viðskiptunum og að honum hafi verið það kunnugt. Þeir menn sem þar ræddu saman voru þar hins vegar að vísa til annars Ólafs, sem kom að málinu sem ráðgjafi, og voru þær ályktanir sem dregnar af samtalinu því rangar. Það hafði veigamikil áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar sem sakfelldi Ólaf fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun. Engin gögn hafa komið fram, hvorki fyrr né síðar, sem sýna að sakfelling hafi byggst á fleiri atriðum.
Einnig sýndi Ólafur fram á að í dóminum sátu dómarar sem að hans mati voru vanhæfir vegna tengsla ættingja þeirra við slitastjórn Kaupþings, sem hafði mikla hagsmuni af því að sakfellt yrði í málinu. Með skipan þeirra brutu dómstólar á þeim grundvallarrétti sakborninga að fá leyst úr máli sínu fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir, að rökstuðningur endurupptökunefndar fyrir niðurstöðu sinni ófullnægjandi að mati Ólafs. Nefndin geri ekki fullnægjandi greinarmun á því um hvaða Ólaf viðskiptin snúist og við hvaða Ólaf sá sem tali kveðst hafa rætt. Slíkur vafi sé uppi um hvort mat Hæstaréttar á efni símtalsins sé rétt að nefndinni hefði borið að fallast á beiðni um endurupptöku til þess að úr því yrði skorið.
Endurupptökunefnd hafni hins vegar beiðni um endurupptöku þrátt fyrir að óumdeilt sé að mati Ólafs, að fullnægt sé því skilyrði laganna fyrir endurupptöku, að verulegar líkur séu á að umrædd sönnunargögn hafi verið rangt metin þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins.
„Niðurstaða endurupptökunefndar veldur verulegum vonbrigðum, ekki hvað síst í því ljósi að sá sem átti símtalið staðfesti í bréfi til nefndarinnar, sem og fyrir dómi, að hann myndi ekki til þess að hafa rætt við Ólaf Ólafsson um viðskiptin, heldur annan mann með sama nafni. Þá yfirlýsingu segir nefndin engu breyta.
Verjendur höfðu ekki tækifæri til þess að leiðrétta þessa röngu ályktun Hæstaréttar því símtalið var ekki tekið til efnislegrar meðferðar í málflutningnum eða því haldið fram af ákæruvaldi að skilja bæri það á þann veg sem Hæstiréttur gerði. Fyrirliggjandi gögn bentu ekki til þess að vafi ríkti um þetta atriði heldur þvert á móti og ekkert gaf til kynna að dómararnir skildu efni símtalsins með öðrum hætti en héraðsdómur, ákæruvald, verjendur og ákærðu,“ segir jafnframt.
„Endurupptökunefnd staðfestir í úrskurði sínum að Kaupþing hf. kunni að hafa haft fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu Al-Thani málsins. Hins vegar sé ekki unnt að fallast á að hagsmunir núverandi og fyrrverandi yfirmanna bankans, sem jafnframt eru synir tveggja hæstaréttardómara sem dæmdu í málinu, verði lagðir að jöfnu við mögulega fjárhagslega hagsmuni slitabúsins af niðurstöðu málsins. Sýna verði fram á að þeir hafi eða muni hafa sérstaka hagsmuni af úrlausn málsins að valdið geti vanhæfi dómaranna.
Endurupptökunefnd segir engu breyta þótt í DV 27.-28. maí 2015 sé fullyrt að núverandi og fyrrverandi starfsmenn slitabús Kaupþings eigi í vændum háar fjárhæðir í kaupauka vegna nauðasamninga við kröfuhafa,“ segir í tilkynningunni.
Með tilkynningunni fylgja tilvitnanir í lögmenn Ólafs Ólafsson og Hreiðars Más Sigurðssonar
„Slíkur vafi er uppi um að símtal sem sakfelling byggðist að stórum hluta á hafi verið rétt túlkað að nefndin hefði að mínu mati átt að fallast á að málið yrði tekið fyrir að nýju. Skiptir þar ekki minnstu að sá eini sem getur sagt til um hver sé réttur skilningur, sá sem átti það símtal sem um ræðir, staðfestir skilning Ólafs. Við þær aðstæður hefði vitaskuld átt að fallast á beiðnina,“ er haft eftir Þórólfi Jónssyni, lögmanni Ólafs.
„Þessi niðurstaða nefndarinnar veldur umbjóðanda mínum vonbrigðum. Ályktanir í dómi Hæstaréttar um hlutdeild Ólafs Ólafssonar í hlutabréfaviðskiptum Sheikh Mohammed skiptu sköpum í málinu. Þær ályktanir eru ekki í samræmi við þann samning sem umbjóðandi minn gerði fyrir hönd Kaupþings banka hf. við Sheikh Mohammed. Þá eru þær í ósamræmi við framburði allra þeirra sem að viðskiptunum stóðu, sem og skjalleg gögn um viðskiptin. Það eru því vissulega vonbrigði að nefndin skuli ekki hafa talið skilyrði fyrir hendi til endurupptöku málsins,“ er haft eftir Herði Felix Harðarsyni, lögmanni Hreiðars Más.