Stórar og djúpar holur við háskólann

Djúpar og breiðar holur má sjá í malarflákanum, sem liggur …
Djúpar og breiðar holur má sjá í malarflákanum, sem liggur þvert yfir götuna. mbl.is/Eggert

Vegfarendur um Sæmundargötu við Háskóla Íslands hafa margir tekið eftir stórum og djúpum holum í malarfláka sem liggur þvert yfir veginn. Undanfarna mánuði hafa kvartanir borist borginni vegna holanna og þá hafa atvinnubílstjórar amast yfir ástandi vegarins samkvæmt heimildum mbl.is.

Ökumenn bifreiða þurfa iðulega að hægja á sér svo að þær hljóti ekki tjón af því að fara yfir flákann. Háskóli Íslands er einn stærsti vinnustaður landsins og er því jafnan mikil umferð um götuna, sem liggur fyrir framan tún Háskólans frá Hringbraut og að Eggertsgötu.

Malbikið rifið upp í desember

Þór Gunnarsson verkefnastjóri hjá gatnadeild Reykjavíkurborgar segir ástand götunnar skýrast af framkvæmdum vegna nýbyggingar Alvogen, en breyta þurfti gatnamótum við horn hússins. Mikið og langt frost hafi svo tafið fyrir lokum framkvæmdanna.

„Það á að koma þarna svokölluð alda yfir götuna,“ segir Þór og útskýrir að það sé upphækkuð gangbraut. „Það var verið að vinna þetta í desember og þá var malbikið rifið upp. Menn héldu svo að það myndi koma einhver þíðukafli þar sem hægt væri að klára verkið en þá skall bara á harðavetur og það hefur ekki náðst að klára þetta.“

Á ábyrgð verktakans og borgarinnar

Hann segir að á meðan þurfi að halda veginum reglulega við og fylla í holurnar sem þar myndast. Það sé á ábyrgð verktakans og borgarinnar að fylgjast með því.

„Hann og við eigum að vera vakandi yfir því að þetta sé gert. En svo gerist þetta svo fljótt og við kannski ekki nógu vakandi,“ segir Þór og bendir á að þegar sé búið að fylla í holurnar einu sinni eða tvisvar það sem af er vetri. Þá segir hann ekki margar kvartanir hafa borist vegna þessa.

„Við erum í raun að bíða eftir því að fá veður til að klára þetta. Það er ekki stórt verk sem er eftir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka