Umhverfisstofnun hefur kallað eftir upplýsingum frá þremur innflytjendum um efnainnihald gúmmíkurls úr dekkjum sem notað er á gervigrasvöllum. Notkun gúmmíkurls á þessum völlum hefur valdið nokkrum áhyggjum því það getur innihaldið ýmis hættuleg efni sem geta losnað út í umhverfið.
Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar, að stofnunin hafi átt samskipti við ýmsa aðila sem leggist gegn notkun á dekkjagúmmíkurli, m.a. foreldra í Reykjavík og forystumenn lækna sem stóðu að ályktun Læknafélags Íslands.
Þá er verið að skoða að gera efnagreiningar á gúmmíkurli og er stofnunin er komin með tilboði í slíkar mælingar. Að auki er verið að kanna notkun á gúmmíkurli.
Á vef stofnunarinnar er tekið fram, að gúmmíið sé ekki hættulegt ef snerting við það sé í takmörkuðu mæli. Ákveðin hætta sé þó fólgin í því að ef gervigrasið og gúmmíið sé ekki endurnýjað reglulega þá byrji smám saman að kvarnast úr gúmmíinu sem þyrlast þá frekar upp og valdi loftmengun vegna ryks og gúmmíagna.
„Á mörgum gervigrasvöllum er notað gúmmíkurl sem oft er fengið úr notuðum bíldekkjum. Endurunnið gúmmí með þessum hætti er ódýrara en nýtt en inniheldur meira af óæskilegum efnum. Gúmmí getur verið misjafnt að gerð en þó er oftast nær óhjákvæmilegt að nota ýmis skaðleg efni við framleiðsluna eins og þungmálma á borð við blý, zink og kadmíum.
Það versta við endurunna gúmmíið er að við framleiðslu bíldekkja hér áður fyrr var notað mikið af olíu sem inniheldur fjölhringa arómatísk vetniskolefni (PAH) sem eru þrávirk og geta m.a. valdið krabbameini. Notkun slíkrar olíu við framleiðslu hjólbarða hefur nú verið bönnuð. Þá eru sumir næmir fyrir náttúrulegu gúmmíi eða latexi og ef loftræsting er ekki nægileg í yfirbyggðum gervigrasvöllum þá er þeim hætt við að fá ofnæmisviðbrögð,“ segir ennfremur.