Bryndís Fanney Sveinsdóttir, í svæðisstjórn Landsbjargar og í björgunarsveitinni Víkverja í Vík í Mýrdal, telur að þörf sé á landverði á svæðið við Reynisfjöru. Hún segir staðinn ágætlega merktan og viðvaranir um hugsanlega lífshættu ættu ekki að fara framhjá þeim sem eiga leið um svæðið. „Þú sérð eldfjallið ekkert betur þó að þú brennir þig,“ segir hún í samtali við mbl.is um hætturnar í Reynisfjöru.
Banaslys varð í fjörunni í morgun þegar karlmaður, sem var á ferð með eiginkonu sinni, féll úr stuðlabergi og niður í sjóinn eftir að alda skall á klettinum. Aðstæður voru góðar; lygn sjór, bjart og nokkuð stillt veður.
Frétt mbl.is: Banaslys í Reynisfjöru
„Varúð, lífshætta. Öldurnar geta verið ófyrirsjáanlegar og óvæntar. Sjávarstraumar eru einstaklega sterkir. Farið því ekki nærri sjónum. Varist grjóthrun úr fjallinu,“ segir á skilti sem blasir við þeim sem leggja leið sína í fjöruna og sjá má á mynd sem fylgir fréttinni. Varað er við hættunni á nokkrum tungumálum.
Uppfært kl. 15.47
Skiltinu var skipt út fyrir rúmu ári síðan. Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir í samtali við mbl.is að um samstarfsverkefni Kynnisferða, Sjóvá, Mýrdalshrepps, lögreglunnar á Suðurlandi og Landsbjargar hafi verið að ræða.
Ákveðið var, í samráði við Vegagerðina, að afmarka bílastæðin þannig að fólk gengi frekar framhjá viðvörunar- og upplýsingaskiltinu. Textinn sem nefndur er hér að ofan var skipt út fyrir nokkrar skýringarmyndir með stuttum texta og segir Jónas það meðal annars hafa verið gert til að mæta þörfum þeirra sem hafi litla enskukunnáttunni.
Þá var svokölluðu Björgvinsbelti, björgunarlykkju, komið fyrir við fjörubrúnina. Erfitt geti þó reynst að hafa skilti og aðra hluti í fjörunni því sjórinn grafi undan undanstöðunum og rífi þá að lokum til sín.
Bryndís segir að öryggismál í Reynisfjöru hafi mikið verið rædd innan Víkverja. Eina kastlínu er að finna í fjörunni og stendur til að bæta fleirum við. Hún tekur fram að fleiri línur hefðu þó ekki bjargað manninum í morgun, ekki hefði verið hægt að ná til hans. Þá hefur einnig verið rætt um að fjölga skiltum. Bryndís tekur fram að svæðið sé ágætlega merkt og viðvaranir ættu ekki að fara framhjá þeim sem eiga leið um það.
„Mín skoðun er sú að við eigum að vera með landvörð niðri í Reynisfjöru. Það er mikilvægara að vera með landvörð þar heldur en alla þessa landverði sem eru að passa mosann uppi á hálendinu. Ég met mannslíf meira en náttúruna þó ég sé náttúruverndarsinni,“ segir Bryndís.
Hún bætir við að það hljóti að vera æskilegt að vera með landvörð á svæði sem mörg hundruð manns heimsæki á degi hverjum. Í gær fóru 1284 bílar um Reynisfjall og segir Bryndís að gera megi ráð fyrir að minnsta kosti helmingur þeirra sem í þeim voru hafi heimsótt fjöruna.
Bryndís segir að gott hafi verið í sjóinn í morgun og hann hafi í raun ekki verið jafn ládauður í allan vetur og í dag. „Það kemur eitt lítið brot og brýtur akkúrat á klettinum þar sem hann stendur,“ segir hún.
Aðspurð um hvort ferðamaðurinn hafi verið á stað sem hann átti ekki að vera á bendir hún á að svæðið sé vissulega ekki lokað og ekkert segi að hann megi ekki vera þarna. „Þetta er auðvitað hættulegur staður, sjórinn er hættulegur,“ bætir hún við.
„Ef þú ferð göngustíginn fram á fjörukambinn sérð þú ekkert meira þó að þú farir í klettana eða flæðarmálið. Það er nóg að fara í fjörukambinn, þá ert þú kominn með allt sem þú sérð. Þú sérð drangann alveg jafn vel hvort sem þú stendur á öruggum stað eða ferð niður í flæðarmáið. Það virðist vera þessi tilhneiging að þurfa alltaf að komast nær. Þú sérð eldfjallið ekkert betur þó að þú brennir þig,“ segir Bryndís að lokum.
Frétt mbl.is: Með heilu þorpin á flakki