Brotið á réttindum fylgdarlausra barna

Ekki er alltaf farið eftir lögum þegar að börn koma …
Ekki er alltaf farið eftir lögum þegar að börn koma hingað án fylgdar og biðja um alþjóðlega vernd. AFP

Brotið er á réttindum barna sem koma hingað til lands til þess að sækja um alþjóðlega vernd. Ekki er farið eftir ákvæðum í lögum um útlendinga þegar að börn sækja hér um hæli. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi lögmannsins Katrínar Oddsdóttur á málþingi UNICEF á Íslandi og lögfræðisvið Háskólans á Bifröst um flóttabörn sem koma til Íslands og stöðu þeirra samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Í erindi sínu fór Katrín yfir nokkur dæmi um þar sem misbrestur hefur orðið á því sem kemur fram í lögum og reglugerðum og hvað sé síðan gert í ferlinu þegar að fylgdarlaust barn, þ.e. einstaklingur undir 18 ára aldri, sem kemur hingað án foreldra eða fjölskyldumeðlima.

Katrín byrjaði á því að nefna þriðju málsgrein 76. greinar stjórnarskrárinnar þar sem segir að börnum skuli vera tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Lagði hún jafnframt áherslu á að lögin eigi við alla þá sem eru á Íslandi hverju sinni og eigi því líka við flóttamenn og hælisleitendur.

„Þetta er skrifað út um allt

„Hælisleitendur og flóttamenn verða fyrir allskonar mannréttindabrotum á meðan þeir bíða eftir niðurstöðu umsóknar þeirra og það er algjörlega óþolandi,“ sagði Katrín. Vitnaði hún einnig í lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns frá árinu 2013. Þar segir að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem það á rétt á.

Einnig vitnaði hún í 12. grein laga um útlendinga þar sem segir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess að vegna sérstakra tengsla hans við landið. „Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun,“ segir í greininni. „Þetta er skrifað út um allt en samt er misbrestur á að þetta sé gert,“ sagði Katrín og nefndi í því samhengi mál albanskra barna með heilsufarsvandamál sem vísað var úr landi í desember.

Nefndi Katrín þá staðreynd að umboðsmaður Alþingis sendi Útlendingastofnun fyrirspurn vegna málsins. „Þá má lesa úr þessu að hann er ekki viss hvort að þessu megin „prinsippi“ sé fylgt í störfum Útlendingastofnunnar,“ sagði Katrín.

Ljóst að löggjöfin vill vernda börn á flótta

Katrín nefndi fjölmörg lög og reglugerðir þar sem fjallað er um réttindi barna sem koma hingað til lands án fylgdar. Hrósaði hún því að flóttamenn og hælisleitendur hér á landi fái réttaraðstoð frá lögmönnum strax í byrjun, þar á meðal fylgdarlaus börn. Fór hún yfir flóttamannahugtakið og benti á að í lögum um útlendinga kemur fram að tekið skal sérstakt tillit ef um er að ræða barn.

„Það er alltaf verið að taka upp hanskann fyrir börn á flótta,“ sagði Katrín. „Það er ljóst að löggjöfin vill að þessi hópur sé verndaður mjög vel.“

Þegar að fylgdarlaust barn sækir um hæli á Íslandi er yfirvöldum gert skylt að tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. „Þetta er nú ekki ströng kvöð en samt er misbrestur á þessu,“ sagði Katrín.

Neitað um heilbrigðisþjónustu vegna ósettrar reglugerðar

Nefndi hún einnig að seinna í lögum um útlendinga er fjallað um réttarstöðu hælisleitanda þar sem fram kemur að hælisleitandi á að fá lágmarksframfærslu, nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og taka skal tillit til þeirra sem þurfa sérstaka aðstoð. Þá þarf líka að tryggja þeim aðgang að menntun og starfsþjálfun. Einnig kemur fram að tryggja skuli barni sem sækir um hæli aðgang að skyldunámi grunnskóla eða sambærilegri menntun innan hins almenna skólakerfis eða á dvalarstað barnsins. 

Benti hún þó á að reglugerð hafi ekki verið sett á grundvelli laganna og er það „gjörsamlega á kostnað hælisleitanda“. Nefndi hún að þeim væri oft neitað um heilbrigðisþjónustu einfaldlega vegna þess að þessi reglugerð hefur verið ekki sett og sagði það fráleitt.

Eiga að fá viðtal innan tveggja vikna

Í erindi sínu útskýrði Katrín að oft komi fylgdarlaus börn hingað til lands sem einfaldlega vita ekki hversu gömul þau eru og er það eðlilegt í sumum löndum.

„Ef að vafi vaknar um aldur fylgdarlaus barns lætur lögregla, að beiðni Útlendingastofnunar, aldursgreina viðkomandi með viðurkenndum aðferðum. Viðkomandi er heimilt að neita því að gangast undir slíka rannsókn og skal starfsmaður Útlendingastofnunar gera honum grein fyrir því hvaða áhrif slík neitun hefur á meðferð málsins,“ segir í 50. grein laga um útlendinga. Aldursgreining er helst gerð með tannskoðun og röntgenmyndatöku og að sögn Katrínar eru til aðilar sem hafa þurft að neita vegna trúar sinnar. „En það lítur ekki vel út fyrir barnið ef það er eins og það hafi eitthvað að fela.“

Í sömu grein kemur fram að hælisleitandi eigi rétt á viðtali hjá Útlendingastofnun. Þegar að viðtal er tekið við fylgdarlaust barn skal starfsmaður sem hefur sérþekkingu á málefnum barna taka viðtalið. Að sögn Katrínar er þeirri grein oft ekki fylgt. Í sömu grein segir jafnframt að Útlendingastofnun geti ákveðið flýtimeðferð m.a. þegar að ástæður umsækjanda eru sérstakar m.a. þegar að það kemur að fylgdarlausu barni.

Í reglugerð um útlendinga frá árinu 2003 kemur jafnframt fram að Útlendingastofnun skuli taka viðtal við fylgdarlaust barn ásamt fulltrúa barnaverndaryfirvalda innan hálfs mánaðar eftir að umsókn barnsins er lögð fram, sé þess nokkur kostur.

Drógu málið þar til hann var orðinn 18 ára

Að lokum nefndi Katrín þrjú dæmi um fylgdarlaus börn sem komu hingað til lands til að sækja um alþjóðlega vernd og lögum var ekki fylgt í meðferð mála þeirra. Fyrsta dæmið var Afgani fæddur árið 1995 en nákvæmur fæðingadagur var ekki vitaður. Hann sótti um hæli 3. apríl 2012 en fékk ekki hælisviðtal hjá Útlendingastofnun fyrr en 29. október 2013. Að sögn Katrínar flúði hann ofsóknir talibana en hann tilheyrði kynþætti í minnihluta og sætti ofsóknum. Þá var faðir hans myrtur vegna stjórnmálaskoðun. Afganinn fékk að lokum hæli eftir langa bið. „Þið getið  ímyndað ykkur hvað það tekur á að bíða í 1 og hálft ár,“ sagði Katrín.

„Hann hafði alltaf haldið því fram að hann væri barn þegar hann kom en hann fékk tilkynningu um að hann yrði sendur í tannrannsókn ári seinna, sem var síðan ekki hægt að framkvæmda vegna tannsjúkdóms sem hann var með,“ sagði Katrín og því var ekki hægt að ákvarða aldur hans.

Drengurinn var vistaður á sama stað og fullorðnir hælisleitendur, honum var ekki skipaður forsjáraðilli né settur í umsjón barnaverndaryfirvalda. „Hann hafði orðið viðskila við fjölskyldu sína og vissi ekkert um afdrif hennar. Enginn hjálpaði honum að reyna að finna hana,“ sagði Katrín.

„Svo þegar að málið var loks tekið fyrir var hann orðinn 18 ára. Þetta dregst og dregst og þegar málið er loks tekið til meðferðar er hann ekki lengur barn og fær því aldrei þá meðferð sem hann átti skilið þegar hann kom hingað,“ sagði Katrín. „Auðvitað er ekki ásættanlegt að það sé verið að koma sér svona framhjá lögunum.“

Fá ekki að njóta vafans

Sagði hún þessa sögu dæmi um að framkvæmdin hjá okkur væri „í algjöru hakki“ og sagði það ósvaranlegt að þessi drengur hafi þurft að bíða svona lengi. Gagnrýndi hún það einnig að hann hafi ekki fengið að njóta vafans með aldur sinn, þó að nákvæmur fæðingadagur hafi ekki verið vitaður. „Að sjálfsögðu á hann að njóta vafans,“ bætti hún við. 

Annað dæmi Katrínar snerist um Súdana sem kom hingað til lands eftir að hann hafði verið á flótta frá átta ára aldri. Hann var ólæs og óskrifandi og glímdi við alvarlegt þunglyndi. „Tannrannsókn sýndi að hann væri mögulega um 19,4 ára gamall en ekki var hægt að útiloka að hann væri undir 18 ára aldri. Ekki var farið með mál hans sem barn og stóð til að senda hann til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar,“ útskýrði Katrín. Því var þó snúið við af kærunefndar útlendingamála vegna bágs andlegs ástands Súdanans. „Ég skil ekki að hann fái ekki að njóta vafann, sérstaklega að ekki var hægt að útiloka að hann væri undir 18 ára aldri. Við þurfum aðeins að stoppa og hugsa hvernig við ætlum að díla við hlutina.“

Framkvæmdin í andstæðu við lögin

Þriðja og síðasta dæmi Katrínar snerist að tveimur bræðum frá Gíneu. Þeir lögðu fram fæðingavottorð og aldursgreiningin sagði að ekki væri hægt að útiloka að um börn væri að ræða. Þrátt fyrir það biðu þeir í 1 og hálft ár eftir hælisviðtali. Annar drengurinn var fatlaður en hinn verulega andlega veikur og að sögn Katrínar ágerðust veikindin með tímanum. Sagði hún þessi dæmi sýna að framkvæmdin er oft í andstæðu við lögin.

Nefndi hún sem dæmi að ef að vafi leikur á hvort að hælisleitandi sé álitinn vera barn í nágrannalöndunum er hann látinn njóta vafans þar til annað liggur fyrir. Nefndi hún máli sínu til stuðnings að í Noregi fari aldursgreiningin fram eins fljótt og auðið er, oftast innan örfárra vikna.

Af hverju er gert frekar ráð fyrir því að einstaklingarnir séu að ljúga? Í hvaða öðrum málaflokki sjáum við það? Þetta er ekki eðlilegt.“

Katrín Oddsdóttir, lögmaður á sviði mannréttinda.
Katrín Oddsdóttir, lögmaður á sviði mannréttinda. mbl.is
Í reglugerð um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun skuli taka …
Í reglugerð um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun skuli taka viðtal við fylgdarlaust barn ásamt fulltrúa barnaverndaryfirvalda innan hálfs mánaðar eftir að umsókn barnsins er lögð fram, sé þess nokkur kostur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Í erindi Katrínar voru nefnd dæmi um hælisleitendur hér á …
Í erindi Katrínar voru nefnd dæmi um hælisleitendur hér á landi sem fengu ekki rétta meðferð. Ljósmynd/Unicef
Flóttamenn og hælisleitendur hafa ekki verið eins margir síðan eftir …
Flóttamenn og hælisleitendur hafa ekki verið eins margir síðan eftir seinni heimstyrjöld. AFP
Margmenni var á fundinum.
Margmenni var á fundinum. Ljósmynd/Unicef
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert