Einn lögreglumaður mun manna vakt í Reynisfjöru næstu tvær vikurnar. Eftir það er gert ráð fyrir að komnar verði hugmyndir um mögulegar lausnir til að auka öryggi og hrinda þeim í framkvæmd. „Það er algjör neyðarlausn að setja lögreglumann á staðinn, en það var ekkert annað í stöðunni,“ segir Víðir Reynisson, verkefnisstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi og fulltrúi Almannavarna.
Frétt mbl.is: Lögregluvakt við Reynisfjöru
Segir Víðir að fyrst um sinn verði lögreglumaðurinn á staðnum yfir þann tíma dags þegar flestir ferðamenn eru á svæðinu, eða meðan bjart er. Verði metið hvort að þörf er á fleirum en einum á næstu dögum. Í gær ákváðu Innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samráði við lögregluna á Suðurlandi að nauðsynlegt væri að bregðast við í kjölfar slyss þar sem erlendur ferðamaður lést í fjörunni.
Kostnaður vegna verkefnisins liggur ekki fyrir en Víðir segir að greiningarvinna um það muni liggja fyrir í dag. Um er að ræða aukafjárveitingu til verkefnisins og segir Víðir að það sé sett upp sem aukavinna þannig að það muni ekki minnka löggæslu í umdæminu.
Aðspurður hvort fleiri staðir væru í skoðun varðandi frekari aðgerðir í öryggismálum segir Víðir að slíkt sé í skoðun, en ekkert liggi fyrir enn. „Lögregluvakt er þó eitthvað sem er ekki til frambúðar,“ segir hann.
Í haust hóf störf stýrihópur um öryggi ferðamanna á vegum innanríkisráðuneytisins og í samstarfi við fjölda annarra hópa. Segir Víðir að hópurinn sé að lista upp brýnustu aðgerðir sem þarf að fara í og að einnig sé horft til lengri tíma. „Það er ljóst að það er ekki hægt að fara inn í annað sumar nema að grípa til annarra ráðstafana,“ segir Víðir.
Bendir hann á að á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs hafi slysum ferðamanna fjölgað um 142% miðað við sama tíma í fyrra.Segir hann óásættanlegt hversu margir ferðamenn slasist eða hafi látist undanfarið.
Enginn ákvörðun hefur verið tekin um við hvaða staði eigi að grípa til aðgerða, en Víðir segir að á Suðurlandi sé verið að horfa til fjölförnustu staðanna. Þetta séu meðal annars Skaftafell, Jökulsárlón, Þingvellir og Gullfoss. Sérstök áhersla sé einnig lögð á staði þar sem langt sé í aðstoð, en í Skaftafelli og Jökulsárlóni sé allavega 40 mínútur í næsta sjúkrabíl við góðar aðstæður.
Víðir segir að þegar tillögur stýrihópsins verði tilbúnar verði unnið að úrlausn verkefna með stjórnstöð ferðamála. Hann segir að hugmyndir um viðbrögð hafi ekki farið inn á fjárlög 2016 og því þurfi að sækja um viðbótarfjárlög og vonast hann til þess að málefnið komist á fjárlög árið 2017.
Aðspurður um helstu öryggisþætti sem þurfi að huga að nefnir Víðir umferðaöryggismál. Segir hann allt of mikið af dauðsföllum ferðamanna í umferðinni „Það sem öskrar á mann eru umferðaöryggismál, það er allt of mikið af dauðsföllum. Það er ekki að fólk sætti við þau, en fólk tekur þessu sem einhverskonar fórnarkostnaði,“ segir Víðir og bætir við að í kringum hvert banaslys blossi umræðan upp en lognist svo útaf.Segir hann þessar aðstæður vera algjörlega óásættanlegar og það hafi mikið verið rætt í hópi þeirra sem vinni í þessum málum alla daga.
Segist hann helst sjá lausnina sem aukin afskipti lögreglu þannig að hún sé ekki bara í aða sekta fólk sem brjóti af sér, heldur líka að leiðbeina t.d. um bílbeltanotkun og að athuga með vanbúna bíla. Segir hann að undanfarin ár hafi innviðir ekki verið byggðir upp í samræmi við þann mikla fjölda ferðamanna sem komi til landsins og mjög mikið álag sé á sjúkrabílum, sjúkrahúsum og lögreglu.
Víðir hefur síðustu tæpu tvo áratugi unnið náið í kringum almannavarnir og náttúruvá. Hann segir að ef sömu tölur kæmu upp í tengslum við náttúruhamfarir og séu í tengslum við banaslys ferðamanna þá yrði fljótt brugðist við. „Ef 16 manns myndu deyja í tengslum við náttúruhamfarir þá yrði öllum steinum velt til að koma í veg fyrir að slíkt kæmi fyrir aftur, það yrði farið í lagabreytingar o.s.frv.,“ segir Víðir. „En svo koma fréttir frá Samgöngustofu um að það sé niðurskurður hjá þeim í umferðaöryggismálum,“ bætir hann við og bendir á að lögreglan hafi undanfarin ár einnig verið skorin niður á fjárlögum.