Snorri hafði betur gegn Akureyrarbæ

Snorri Óskarsson.
Snorri Óskarsson. mbl.is/Jóhannes

Hæstiréttur hefur sýknað Snorra Óskarsson af kröfum Akureyrarbæjar og dæmt uppsögn hans ólögmæta. Ágreiningurinn snýst um það hvort bærinn hefði með lögmætum hætti sagt Snorra upp störfum sem grunnskólakennari vegna ummæla um samkynhneigð sem hann lét falla á bloggsíðu sinni.

Þá skal Akureyrarbær greiða honum eina milljón króna í málskostnað.

Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði áður sýknað Snorra, sem er oft kenndur við söfnuðinn Betel, í dómi sem féll í apríl í fyrra. 

Akureyrarbær krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður innanríkisráðuneytisins frá 4. apríl 2014 þar sem ákvörðun frá 12. júlí 2012 um að segja stefnda Snorra upp starfi kennara við Brekkuskóla, var metin ólögmæt.

Snorri er grunnskólakennari og hafði starfað sem slíkur nær allar götur frá árinu 1973 þar til honum var sagt upp störfum 12. júlí 2012. Hann var ráðinn kennari við Brekkuskóla á Akureyri 1. ágúst 2001. 

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að með vísan til 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 réðust réttindi og skyldur Snorra í starfi af ákvæðum kjarasamnings, sem hafði verið í gildi þegar honum var veitt áminning í febrúar 2012 og síðar sagt upp störfum í júlí sama ár.

Litið var svo á að ákvæði kjarasamningsins um heimildir vinnuveitanda til að áminna starfsmann og segja upp ráðningarsamningi vegna ávirðinga, sem ekki gæfu þó tilefni til fyrirvaralausrar brottvikningar, væru bundnar við atriði sem sneru að framferði starfsmannsins í starfi.

Þau ákvæði kjarasamningsins um skyldur starfsmanns, sem gætu að nokkru tekið til háttsemi hans utan starfs, væru á hinn bóginn ekki tengdar við heimildir vinnuveitanda til áminningar eða uppsagnar.

Talið var að gæta yrði að því að Akureyrarbær væri sem stjórnvald bundinn af þeirri meginreglu að lagaheimildar væri þörf fyrir gerðum hans. Bærinn hefði beitt áminningu og uppsögn til að bregðast við ummælum sem Snorri hafði látið falla opinberlega utan starfs síns og án tengsla við það.

Akureyrarbær hefði því vegna ákvæða 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar þurft ótvíræða stoð fyrir slíkum viðbrögðum í kjarasamningnum. Þar sem að slík stoð hefði ekki verið fyrir hendi var uppsögn Snorra talin ólögmæt.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka