Fyrstu fangarnir komi með vorinu

Frá framkvæmdum við Hólmsheiði í nóvember síðastliðnum.
Frá framkvæmdum við Hólmsheiði í nóvember síðastliðnum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Framkvæmdir við fangelsið á Hólmsheiði eru í grófum dráttum á áætlun. Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is. Hann segir að tíma muni taka fyrir starfsmenn til að læra á fangelsið.

„Þetta lítur allt mjög vel út og fyrstu fangar munu koma í hús með vorinu. Svo tökum við húsnæðið í notkun í áföngum út árið en meginatriðið er að við gerum þetta ekki hraðar en við treystum okkur til,“ segir Páll.

Hann segir að allt sé á áætlun í grófum dráttum. „Það er örlítil seinkun á að starfsmennirnir hefji þarna störf. Ég geri núna ráð fyrir að fyrstu starfsmenn fari upp eftir í síðari hluta mars. Þetta eru viðamiklar framkvæmdar og margt í gangi í einu,“ segir Páll. „En það eru allir alsælir með framvindu og húsið sjálft.“

56 fangar og tuttugu starfsmenn

Í fangelsinu verða rúmlega tuttugu starfsmenn og 56 fangar. Húsnæðið er flókið og mjög tæknivætt og því tekur tíma fyrir starfsmennina að læra á öll kerfi.

„Þeir hafa gert það þannig á Norðurlöndunum að fangelsin eru rekin án fanga í hálft ár. Starfsfólk þarf hreinlega tíma til að læra á þetta allt saman, prufukeyra, kanna allar reglur og tryggja að það sé hægt að skilja að hópa af föngum. Þetta er flókinn og spennandi rekstur og við getum vart beðið eftir að hefjast handa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka