Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna endurnýjunar gervigrasvalla á næstu tveimur árum nemur rúmum 200 milljónum króna. Áætlaður kostnaður við að skipta út SBR-gúmmíi á þeim gervigrasvöllum sem það hafa, nemur rúmum 100 milljónum króna.
Um er að ræða níu keppnis- og æfingavelli með gervigrasi.
Skipt verður um gras og gúmmí á Víkingsvelli á þessu ári og hljómar kostnaðaráætlunin upp á 50 milljónir króna.
Vorið 2017 er gert ráð fyrir endurnýjun gervigrasvalla Fylkis og KR, auk þess sem skipt verður um gúmmíkurl í gervigrasvelli Fram í Úlfarsárdal. Áætlaður framkvæmdakostnaður vegna þessara verkefna er 155 milljónir króna, að því er kemur fram í greinargerð á vef Reykjavíkurborgar.
Áætlað er að endurnýja gervigrasvöll Leiknis í Breiðholti 2018 og völl ÍR í Breiðholti 2019.
Á vef borgarinnar kemur fram að frá árinu 2010 hafi borgin sett þá stefnu að setja ekki svart SBR-gúmmíkurl í gervigrasvelli. Ákvörðunin hafi verið tekin vegna þess að fram höfðu komið ábendingar um að svart SBR-kurl gæti hugsanlega verið heilsuspillandi.
„Reykjavíkurborg hefur aflað upplýsinga um gúmmíkurl og gervigrasvelli. Á grundvelli þeirra upplýsinga er ekki talin nauðsyn á að skipta því út. Engar óyggjandi sannanir liggja fyrir um það hvort gúmmíkurlið sé hættulegt eða ekki,“ segir á vefnum.
„Því mun Reykjavíkurborg halda sig við þá stefnu sem að mótuð var árið 2010 að gervigrasvellir verði ekki endurnýjaðir með SBR gúmmíi og að útskipting á SBR gúmmíi verði framkvæmd í kjölfar viðhaldsverkefna á hverjum velli samkvæmt viðhaldsáætlun. Það verði því ekki farið í að skipta út SBR gúmmíinu eingöngu í einni aðgerð.“
Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að endurunnið gúmmí sem dreift er á flesta vellina inniheldur efni sem talin eru heilsuspillandi og geta valdið krabbameini. Stofnunin hefur kallað eftir upplýsingum frá þremur innflytjendum um efnainnihald gúmmíkurls úr dekkjunum sem notað er á gervigrasvöllum.
Frétt mbl.is: Gúmmíkurlið brotið til mergjar
Frétt mbl.is: Ekki skipt um gúmmíkurlið strax