Yfir 70 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins. Með undirskriftasöfnuninni er þess krafist að 11 prósentum af vergri landframleiðslu verði varið í þágu heilbrigðismála í stað 8,7 prósenta sem nú er gert.
Er undirskriftarsöfnunin orðin næst fjölmennasta undirskriftarsöfnun landsins á eftir undirskriftarsöfnuninni gegn beitingu hryðjuverkalaga breska ríkisins, sem taldi ríflega 83 þúsund undirskriftir. Undirskriftasöfnun gegn flutnings Reykjavíkurflugvallar er þriðja fjölmennasta, með 69.637 undirskriftir.
Kári var hæstánægður með fjöldann þegar mbl.is náði af honum tali fyrir skemmstu og sagði hann nú erfitt fyrir stjórnvöld að hunsa kröfuna. „Stjórnvöld eiga að líta á þetta sem tækifæri. Þau hafa nú umboð fólksins til að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins,“ segir Kári.
Að sögn Kára fór hann aðeins af stað með undirskriftarsöfnunina til þess að kanna hug fólks í landinu, en viðurkennir það að hann gleðjist yfir því að býsna stór hópur í landinu sé sömu skoðunar og hann; að gera þurfi betur í heilbrigðismálum.
„Fólk sem býr í þessu landi finnst það eiga skilið betra heilbrigðiskerfi og sættir sig ekki við þetta,“ segir Kári.
Aðspurður segir hann að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvert framhaldið verður, en stefnt sé að því að halda opinn fund þar sem ráðamönnum verði boðið að koma og hlusta. „Tjá sig, en fyrst og fremst til að hlusta. Við sjáum hvort þeir sjái ástæðu til þess að mæta, maður veit aldrei,“ segir Kári.