Lögreglumaður varaði við húsleit

Lögreglumaður, sem áður starfaði hjá fíkniefnalögreglunni, er sagður í Fréttablaðinu hafa spillt húsleit með því að hafa varað mann við sem var grunaður um fíkniefnamisferli um að það ætti að leita í húsnæði sem tengdist honum.

Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag en heimildir blaðsins herma að sá sem hafi átt að leita hjá hafi viðurkennt þetta við yfirheyrslur hjá héraðssaksóknara. Viðkomandi er með réttarstöðu grunaðs manns á rannsókn saksóknara á meintri spillingu innan lögreglunnar. 

Fréttablaðið heldur því fram að lögreglumaðurinn, sem hefur verið vikið frá störfum í lögreglunni, hafi að minnsta kosti einu sinni varað manninn við og því hafi tekist að tæma húsnæðið áður en lögreglan kom á staðinn. 

Um er að ræða lögreglumann sem ítrekað hafði verið sakaður um, af samstarfsfólki, að vera í óeðlilegum samskiptum við afbrotamenn. 

Fréttablaðið segir að óljóst sé hvort peningar hafi skipt um hendur vegna þessa en að sá sem upplýsti um þetta við yfirheyrslur hafi veitt lögreglumanninum þess í stað upplýsingar um umsvif annarra í fíkniefnaheiminum.

Frétt Fréttablaðsins í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert