Gekk á Hvannadalshnjúk á skíðum og renndi sér heim

Einar Rúnar Sigurðsson, stofnandi og aðalleiðsögumaður Local Guide í Hofsnesi í Öræfum, gekk á skíðum á Hvannadalshnjúk á sunnudaginn var. Þetta var 281. ferð hans á hæsta tind Íslands. Hann gekk rúmlega 34 km á 9 klukkustundum og 24 mínútum og hæðarmunurinn var um 2.000 metrar.

„Ég lagði af stað af tröppunum heima klukkan 6.30 um morguninn og var sjö tíma upp á hnjúkinn. Það er 17 kílómetra leið. Ég var enga stund niður miðað við hvað maður var lengi upp. Ég var um tvo og hálfan tíma ofan af toppnum og rann heim á hlað fyrir klukkan 16.00. Ég hef aldrei fyrr gengið alveg að heiman upp á Hnjúk og rennt mér aftur heim,“ sagði Einar.

Fyrsti kílómetrinn að heiman er aflíðandi en þó það mikill halli að hann rann það viðstöðulaust á heimleiðinni. Eftir 1,5 km er komið í meira fjalllendi og er bratt alveg upp í 1.800 m hæð. Leiðin yfir gíg Öræfajökuls er um fjórir km og næsta slétt. Síðan tekur við sjálfur Hvannadalshnjúkur, sem er brattur.

Einar kvaðst hafa valið aðra leið til baka á kafla en þá sem hann fór upp. Hann lenti í lausasnjó á um kílómetra kafla á uppleiðinni og sökk djúpt í þótt hann væri á skíðunum. Undir lausamjöllinni var grjót og því ekki hægt að skíða þar yfir. Einar sagði að hann myndi ekki eftir jafn miklum snjó og nú í Öræfum síðan hann var drengur. Snjórinn er svo mikill að Einar gat rennt sér yfir Gljúfur, sem er fullt af snjó.

Hann sagðist hafa þurft að hafa varann á á köflum vegna snjóflóðahættu, sérstaklega í um 700 metra hæð, en ekki á jöklinum eða á sjálfum Hnjúknum. Á Facebook-síðu Einars (Local Guide – of Vatnajokull) er hægt að sjá leiðina.

Hann sagðist hafa farið á Hvannadalshnjúk í öllum mánuðum en aldrei öllum mánuðum á sama árinu. Einar stefnir að því að fara á Hnjúkinn í hverjum mánuði ársins 2016. Fyrstu ferðina fór hann 30. janúar og aðra ferðina 14. febrúar.

„Veðrið og skyggnið var snilld. Það var um 12 stiga frost á toppnum. Það munaði um sólina. Það var miklu kaldara í janúar og það var kaldasta ferð sem ég hef farið. Nú var ég með lambhúshettu, skíðagrímu og skíðagleraugu allan tímann til að kala ekki í framan. Svo var ég með þykkar dúnlúffur, hlýir hanskar dugðu ekki. Maður þarf að vera klæddur eins og geimfari á þessum árstíma,“ sagði Einar.

Einar telur að ástæða sé til að mæla hæð Hvannadalshnjúks nú í maí. „Ég gæti trúað að nú nái hann sinni gömlu hæð, 2.119 metrum. Síðast var hann mældur eftir mikið hlýindaskeið og í lok sumars. Það á að mæla þetta fjall eftir góðan snjóavetur og áður en sumarið er komið fyrir alvöru,“ sagði Einar. Hann fékk vin sinn til að mæla hæð Hnjúksins með vönduðu landmælingatæki fyrir þremur árum og þá mældist tindurinn yfir 2.113 metrum. Einar sagði að heilmikið hefði bæst við hnjúkinn síðan þá, sérstaklega í fyrra og í vetur.

Einar fór sína 281. ferð á Hvannadalshnjúk á sunnudaginn var. …
Einar fór sína 281. ferð á Hvannadalshnjúk á sunnudaginn var. Hann fór að heiman og heim á skíðum. ljósmynd/Einar Rúnar Sigurðsson
Myndin er tekin upp undir Hvannadalshnjúk. Horft á Dyrhamar og …
Myndin er tekin upp undir Hvannadalshnjúk. Horft á Dyrhamar og þar fyrir framan er Skeiðarársandur og Lómagnúpur í fjarska. ljósmynd/Einar Rúnar Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert