Íslendingar æstir í Kanarí

Kanarí hefur löngum ferð vinsæll áfangastaður Íslendinga yfir vetrartímann. Í …
Kanarí hefur löngum ferð vinsæll áfangastaður Íslendinga yfir vetrartímann. Í sumar verður í fyrsta sinn í 10 ár boðið upp á sumarferðir til Gran Canaria. AFP

Fregnir af óveðri og ófærð víða um land ættu svo sem ekki að koma landsmönnum í opna skjöldu á þessum árstíma en það er engin tilviljun að á sama tíma kynna ferðaskrifstofur sumaráætlanir sínar. Varla má vafra um á netinu án þess að rekast á tilboð líkt og „sjóðheita sólarhringsspretti“ þar sem boðið er upp á ýmsa möguleika fyrir einstaklinga, pör eða fjölskyldur að stinga af í sólina.

Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu fóru rúmlega 119 þúsund íslenskir farþegar frá Keflavíkurfllugvelli frá janúar og fram í apríl og rúmlega 135 þúsund yfir sumarmánuðina. Hversu stór hluti var á leið í sólarlandaferð er ekki vitað.

Ljóst er að framboð á sólarlandaferðum hefur aukist frá því í fyrra og á ferðavefnum Túristi.is kemur fram að í sumar verði oftar flogið til Tenerife en áður og í fyrsta skipti í áratug verður boðið upp á sumarferðir til Kanarí, það er til eyjunnar Gran Canaria. 

Nánast uppselt til Kanarí og Tenerife í febrúar

„Sala á sumarferðum til Kanarí hafa farið vel af stað og eru ferðirnar afar vinsælar meðal fjölskyldufólks,“ segir Klara Íris Vigfúsdóttir, forstöðumaður hjá Úrval-Útsýn.

Kanarí hefur löngum verið vinsæll áfangastaður Íslendinga yfir vetrartímann og er að verða uppselt til Kanarí í febrúar hjá Úrval útsýn. „Tenerife er áfram vinsæll áfangastaður meðl Íslendinga og það er einnig að verða uppselt í allar ferðir til Tenerife í febrúar,“ segir Klara.

Steinþóra Sigurðardóttir, sölustjóri hjá Vita segist hafa fundið fyrir aukningu milli ára þegar kemur að bókunum. „Nú er orðið uppbókað til Tenerife um páskana og örfá sæti laus til Kanarí.“ 

Meðal sérferða hefur Balí verið að njóta mikilla vinsælda hjá ferðalöngum sem sækjast eftir óhefðbundnari ferðum. „Balí er mjög vinsæll áfangastaður meðal allra sem vilja komast á framandi slóðir, upplifa spennandi menningu, friðsæld og njóta náttúrunnar,“ segir Klara.

Spænska sólin sú vinsælasta

Mesta framboðið af sólarlandaferðum í ár er til Spánar og bjóða stærstu ferðaskrifstofur landsins, Vita, Heimsferðir og Úrval-Útsýn upp á vikulegar ferðir til Mallorca. Úrval-Útsýn býður eingöngu upp á sólarferðir til Spánar í sumar en auk Spánarferða bjóða Heimsferðir og Vita einnig upp á ferðir til Krítar. Kanarí er nýjasti áfangastaður Gaman ferða, sem bjóða auk þess upp á ferðir til Tenerife allan ársins hring.

Ferðir til Tyrklands hafa lagst af hjá íslenskum ferðaskrifstofum en norræna ferðaskrifstofan Nazar býður upp á margs konar ferðir í nágrenni við Antalya. „Við höfum ekki boðið upp á ferðir til Tyrklands í tæplega tvö ár og búumst ekki við að endurvekja þær eins og staðan er núna,“ segir Klara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert