Leyfi fólki að njóta vafans

Útlendingastofnun vildi ekki taka umsókn fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar.
Útlendingastofnun vildi ekki taka umsókn fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögmaður kólumbískrar konu og tveggja dætra hennar sem vísa á úr landi eftir að hafa dvalið hér vel á annað ár telur líklegt að farið verði með málið eins langt og hægt er og vill að fólk í þeirra stöðu fái að njóta vafans. Stúlkurnar tvær hafi gengið í skóla í Keflavík og myndað tengsl við landið.

Konan kom ásamt dætrum sínum til landsins frá Spáni í september árið 2014 en þar höfðu þær fengið hæli eftir að hafa flúið Kólumbíu á sínum tíma. Dætur hennar eru nú 18 og 10 ára gamlar. Sú yngri er spænskur ríkisborgari. Þær sóttu um hæli sem pólitískir flóttamenn hér á landi og nutu aðstoðar Rauða krossins.

Umsókn þeirra var hins vegar ekki tekin til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála haggaði ekki þeirri niðurstöðu. Því stendur til að vísa þeim úr landi aftur til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úlfar Freyr Jóhannsson, lögmaður fjölskyldunnar, segir að ákvörðunin verði kærð til dómstóla og óskað hafi verið eftir að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað á meðan hún leitar réttar síns. Farið verði fram á að umsóknin verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Gagnrýnir langan meðferðartíma umsókna

Strangt til tekið sé úrskurðurinn um að vísa frá umsókninni eftir bókinni en Úlfar telur að líta þurfi til samfélagslegra og mannréttindasjónarmiða. Hann gangrýnir einnig hversu langan tíma taki að fara yfir hælisumsóknir.

„Þegar fólk er búið að vera hérna í tvö ár og ná ákveðnum tengslum við landið, stelpurnar eru komnar í skóla og sjá fyrir sér lífið hérna á Íslandi frekar en í óvissu einhvers staðar annars staðar, þá finnst manni málsmeðferðin taka svolítið langan tíma,“ segir lögmaðurinn.

Krafan sé einfaldlega sú að umsókn þeirra verði tekin til efnismeðferðar í ljósi þessa en ekki verði aðeins gripið til ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar.

„Þetta væri allt annað ef þetta væri fólk sem væri búið að vera hérna í mánuð eða viku en tvö ár eru allt annar tímarammi. Það er verið að setja þær í allt aðra stöðu,“ segir Úlfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert