Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það vera áfall fyrir flokkinn að Katrín Júlíusdóttir ætli að hætta á Alþingi eftir næstu kosningar.
Hún segir Katrínu vera mjög frambærilegan og hæfileikaríkan stjórnmálamann sem sé glæsilegur fulltrúi Samfylkingarinnar.
„Hins vegar skil ég hana persónulega. Hún er ung kona með mjög mikla reynslu og hæfileika. Hún á góða framtíð og ýmsa möguleika. Ég skil að hún vilji á miðjum aldri skapa sér nýtt líf. Hún er búin að þjóna þjóð sinni mjög vel á þinginu en það verður mikil eftirsjá af henni úr íslenskum stjórnmálum og ég er mjög slegin yfir þessu,“ segir Ólína.
Frétt mbl.is: Katrín hættir á Alþingi
Aðspurð hvort hún hafi séð Katrínu fyrir sér sem næsta formann Samfylkingarinnar segir hún: „Hún hefði komið mjög sterklega til greina sem forystuefni í Samfylkingunni og ég held að margir hafa séð hana fyrir sér þannig. En ég virði hennar niðurstöðu. Það er til líf fyrir utan stjórnmál. Hún er móðir ungra barna og á svo marga aðra möguleika. En mér finnst mikil eftirsjá að henni.“
Frétt mbl.is: „Ég sakna hennar nánast nú þegar“
Frétt mbl.is: „Samfylkingin lifir ekki til haustsins“