Fáar ábendingar hafa borist til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna karlmanns sem var á ferð við Móabarð í Hafnarfirði á mánudagsmorgunn. Verið er að skoða ábendingarnar en þær hafa ekki leitt lögreglu áfram við rannsókn málsins.
Maðurinn tengist rannsókn ofbeldis- og kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Samkvæmt frá Vísis.is er maðurinn grunaður um að hafa ráðist á konu sem var ein heima með ungt barn á mánudagsmorguninn. mbl.is hefur heimildir fyrir því að maðurinn hafi villt á sér heimildir með því að segjast vera á vegum orkufyrirtækis og þyrfti að lesa af mælum. Þannig hafi hann komist inn til konunnar og brotið á henni.
Árni segist ekki geta tjáð sig um þetta vegna rannsóknarhagsmuna.
Lögerglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti eftir upplýsingum um manninn í gær. Þar segir m.a. að hann sé um 180 sm á hæð og fölleitur, dökklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Hann er talinn vera á aldrinum 35 – 45 ára.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu á skrifstofutíma í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Frétt mbl.is: Maðurinn við Móabarð tengist kynferðisbrotarannsókn