Grunnnámið flutt frá Laugarvatni

Laugarvatn.
Laugarvatn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Háskólaráð Háskóla Íslands ákvað á fundi sínum í dag að flytja nám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur og að nýta aðstöðu á Laugarvatni til annarra þarfa, ef það á við.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og formaður Háskólaráðs, segir í samtali við mbl.is að í grunninn snúist málið um að það hafi vantað nemendur á Laugarvatni. Áætlað er að flutningurinn til Reykjavíkur muni fjölga þeim, en horft er til þess að svo námsbrautir beri sig séu allavega 30-40 manns sem hefji nám á hverju ári.

Nám í íþróttafræði hefur verið að Laugarvatni í rúmlega 80 ár og lengi vel var aðsóknin meiri en unnt var að verða við. Undanfarinn áratug hefur ásóknin farið dvínandi og segir Jón Atli að frá 2012 hafi fækkað í náminu um 43%.

Frá og með næsta hausti verða nýir nemendur innritaðir í námið í Reykjavík, en þeir sem hafa þegar hafið nám á Laugarvatni munu klára námið þar að sögn Jóns Atla. Hann segir námið vera mikilvægt og til að tryggja gæði þess áfram sé nauðsynlegt að flytja það til Reykjavíkur. Það sé gert með samlegðaráhrifum við aðrar brautir og þá sé meistaranámið nú þegar í Reykjavík.

Frétt Morgunblaðsins: Lokun að Laugarvatni þykir líkleg 

Fleiri ástæður en gæðakröfur lágu á bak við ákvörðunina, en Jón Atli segir að málið hafi lengi verið til skoðunar. Þannig hafi fyrrverandi rektor skipað hóp til að fara ofan í málið og sá hópur hafi skilað skýrslu. Þar voru nokkrir framtíðarmöguleikar listaðir upp, bæði áframhaldandi vera á Laugarvatni og flutningur til Reykjavíkur. Í framhaldi af því voru tveir greinendahópar fengnir til að skoða kostina betur, en þeir voru skipaðir fólki úr stjórnsýslu skólans og aðilum tengdum náminu.

„Grunnurinn er að það vantar nemendur,“ segir Jón Atli. „Ef við flytjum til Reykjavíkur eru meiri möguleikar á að fá fleiri nemendur.“

Þá fylgdi því talsverður kostnaður að halda áfram náminu á Laugarvatni. Segir Jón Atli að samkvæmt skýrslunni hafi verið metið að fara þyrfti í endurbætur og uppbyggingur fyrir 300 milljónir á Laugarvatni ætti að halda náminu áfram þar. Stafar það meðal annars af því að skólinn rekur sundlaugina og aðra íþróttaaðstöðu á svæðinu sem kallar á viðhald á næstunni.

Samsvarandi einskiptiskostnaður við að flytja námið til Reykjavíkur er um 20 milljónir. Þá hafi verið metið að hvert ár á Laugarvatni kosti um 15 milljónir meira en að hafa það í Reykjavík.

Jón Atli segir að miðað sé við að námið verði allt komið til Reykjavíkur á næstu þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka