HÍ hefur hug á að nýta Laugarvatn áfram

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Håkon Broder Lund

Með flutningi grunnnáms í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur losnar um húsnæði skólans, nemendavistina og aðsetur kennara á staðnum. Háskóli Íslands mun athuga hvort hægt verði að hafa áfram einhverja starfsemi á svæðinu, en meðal annars er horft til þess að þar verði miðstöð fyrir lotukennslu eða rannsóknarsetur. „Við höfum áhuga á því að vera þarna með einhverja starfsemi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor skólans.

Ákvörðun um flutninginn var tekin á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands í dag, en málið á sér nokkuð lengri sögu þar sem í skoðun hefur verið að færa námið vegna fækkunar nemenda við námsbrautina.

Frétt mbl.is: Grunnnámið flutt frá Laugarvatni

Jón Atli segir í samtali við mbl.is að nú séu í gangi viðræður við ýmsa aðila sem tengist Laugarvatni, háskólanum og stjórnsýslunni varðandi framtíðarnotkun á fasteignum og svæðinu. Segir hann ýmsar hugmyndir hafa komið fram og nú sé verið að skoða þær.

Laugarvatn
Laugarvatn mbl.is/Sigurður Bogi

Meðal annars hafi verið rætt að háskólinn væri með einhverskonar miðstöð á Laugarvatni fyrir nám, kennslu og þróunarstarf. Segir hann að þar gæti verið aðstaða fyrir lotukennslu, meðal annars í íþrótta- og heilsufræði. Þetta sé meðal þess sem nú sé verið að ræða við yfirmenn sviða innan háskólans.

Þá segir hann að horft hafi verið til þess að stofna rannsóknarsetur á Laugarvatni, en skólinn rekur nú þegar þrjú slík á Suðurlandi. „Ef farið er í þessar hugmyndir þarf það að ganga upp faglega og fjárhagslega,“ segir þó Jón Atli.

Húsnæði skólans er í eigu ríkisins, en skólinn hefur haldið utan um það. Um er að ræða skólahúsnæðið, vistina, sundlaugina, íþróttavöllinn og húsnæði kennara.

Frétt Morgunblaðsins: Lokun að Laugarvatni þykir líkleg

Skólinn rekur meðal annars sundlaugina að Laugarvatni.
Skólinn rekur meðal annars sundlaugina að Laugarvatni. Hafþór B. Guðmundsson

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert