Töpuðu snakkmáli í Hæstarétti

Finnur Árnason, forstjóri Haga, Andri Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, Magnús …
Finnur Árnason, forstjóri Haga, Andri Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, Magnús Óli Ólafsson, framkvæmdastjóri Innness og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Samsett mynd

Innflutningsfyrirtækin Innnes, Hagar og Ölgerðin töpuðu í dag dómsmáli fyrir Hæstarétti þar sem reynt var á lögmæti 59% tolls á innflutt kartöflusnakk. Staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms þar sem ríkið hafði verið sýknað af kröfu fyrirtækjanna um endurgreiðslu á tollinum. Alþingi hefur aftur á móti ákveðið að afnema tollinn um næstu áramót samkvæmt ákvörðun Alþingis í desember á síðasta ári.

Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda kemur fram að vörn ríkisins hafi verið sú að tollurinn væri almennt ætlaður til tekjuöflunar en ekki sem verndartollur fyrir innlenda framleiðslu. Segir félagið að ríkið hafi ekki getað gefið neinar skýringar á því hvers vegna sú tiltekna útgáfa af snakki sem deilt var um ætti að vera sérstök tekjulind og hvers vegna gjaldtakan væri svona há.

Segir félagið að viðbrögð innlendra snakkframleiðenda við áformum um afnám snakktollsins í lok síðasta árs hafi aftur á móti sýnt fram á að þeir líti á tollinn sem verndartoll. Í niðurstöðu sinni sagði Hæstiréttur að gjaldtakan rúmist innan fjárstjórnarvalds ríkisins.

Lögmaður innflutningsfyrirtækjanna segir að neytendur greiði 160 milljónir árlega vegna …
Lögmaður innflutningsfyrirtækjanna segir að neytendur greiði 160 milljónir árlega vegna skattsins. Jim Smart

„Þetta mál er í raun allt hið ótrúlegasta. Eftir 20 ára gjaldtöku kannast ríkið allt í einu ekki við að þetta sé verndartollur. Ríkið segist vera að afla sér tekna með almennum hætti og að það sé bara tilviljun að himinhár tollur upp á 59% lenti á einni einstakri vöru,“ ef haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í tilkynningunni.

Segir Ólafur að ljóst sé að tollurinn verndi engan íslenskan landbúnað og að engar kartöflur, hvorki innlendar eða innfluttar séu í íslenska snakkinu. „Þetta er augljóslega ekki almenn gjaldtaka og henni er augljóslega ætlað að vernda innlenda verksmiðjuframleiðslu, undir yfirskini tollverndar fyrir búvöruframleiðslu. Það er erfitt að sætta sig við þá niðurstöðu Hæstaréttar að þetta sé í lagi,“ segir Ólafur.

Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, Hæstaréttarlögmaður var lögmaður fyrirtækjanna. Hann segir að gjaldtakan hafi kostað neytendur 160 milljónir á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka