„Búið að drepa niður stemninguna“

Vatnið stóð fyrir bubbluboltamóti á Laugarvatni í haust við góðar …
Vatnið stóð fyrir bubbluboltamóti á Laugarvatni í haust við góðar undirtektir. Ljósmynd/ Vatnið.

Stemningin meðal nemenda í íþrótta- og heilsufræði á Laugarvatni tók skarpa dýfu í gær þegar háskólaráð Háskóla Íslands ákvað á fundi sínum að flytja námsbrautina til Reykjavíkur.

Dísa Ragnheiður Magnúsdóttir, formaður Nemendafélagsins Vatnsins og, segir þungt yfir samnemendum sínum sem hafi áhyggjur af hugsanlegum áhrifum á kennslu, húsnæðismál og skemmtanalíf á svæðinu.

„Það eru eiginlega allir ósáttir við þessar breytingar. Við sem erum á fyrsta og öðru ári núna fáum að klára hér en næsta haust byrjar fyrsta árið í Reykjavík. Auðvitað er fínt að fá að klára á Laugarvatni en það er samt búið að drepa niður stemninguna því við vitum að það verður í síðasta sinn og við munum ekki fá að kynnast nýjum nemendum,“ segir Dísa.

Dísa kveðst vera sammála Oddnýju Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, sem gagnrýnt hefur ákvörðunartökuna og ferlið að baki henni.

„Það var búið að gera lítið sem ekkert til að auglýsa námið á Laugarvatni, við nemendur vorum tilbúin að leggja á okkur vinnu og voru allskonar hugmyndir sem nemendur og aðrir komu með t.d. að semja lag og fleira til að vekja athygli á skólastarfinu en það voru aldrei til neinir peningar til að nota í auglýsingar,“ segir Dísa.

„Við nemendur gerðum t.d. snap aðgang fyrir skólastarfið til að gera allavega eitthvað. Núna allt í einu eru til peningar til þess að auglýsa skólastarfið í Reykjavík, af hverju voru þeir peningar ekki nýttir til þess að reyna að gera eitthvað fyrir HÍ á Laugarvatni í staðinn?“

Nándin tapast í borginni

Hún segir staðsetningu námsbrautarinnar gera það að verkum að nemendur mynda þéttan og náinn hóp. Þeir sem fyrir eru muni halda í þá nánd en með öllu óljóst sé hvernig félagslífi verði háttað hjá fyrsta árs nemum í Reykjavík. Farið gæti svo að tvö nemendafélög verði starfandi innan sömu námsbrautarinnar en einnig sé líklegt að nýnemarnir leiti á náðir annarra nemendafélaga af menntavísindasviði.

„Maður kemst ekki í gegnum skólann án þess að hafa félagslífið,“ segir Dísa ákveðin og vísar aftur í sérstöðu nemendahópsins á Laugarvatni.

„Í bænum fer maður í vísindaferðir en svo splundrast hópurinn þegar farið er niður í bæ. Hér höfum við verið með kvenna- og karlaferðir þar sem við förum eitthvað í sitthvoru lagi en á endanum koma allir aftur á vistina og halda áfram að skemmta sér í sameiningu.“

Óviss, fúl og ósátt

Eins og áður segir er það ekki aðeins félagslífið sem nemendurnir hafa áhyggjur af. Þeir hafa enga kynningu fengið um fyrirætlanir háskólans og því ríkir mikil óvissa um hvernig námi þeirra verður háttað.

„Fólk hefur áhyggjur af því að eitthvað af kennslunni muni fara fram í Reykjavík sem þýðir að við þurfum að keyra mikið á milli. Sem meikar engann sens. Við erum með frábæra kennara og ég hef ekki áhyggjur af gæðum námsins sem slíkum en svo veit maður ekki hvernig kennararnir höndla það að kenna í bænum en þurfa kannski að keyra austur sama dag að kenna.“

Dísa segir nemendum hafa borist póstur í dag um að haldinn verði kynningarfundur á næstunni.

„En þangað til vitum við ekkert. Maður er bara frekar fúll og ósáttur yfir þessu.“

Meðal þeirrar óvissu sem ríkir eru sögusagnir um vistarverur nemenda, þess efnis að á næsta ári verði aðeins einn gangur í notkun nemenda á heimavistinni.

„Við höfum ekki fengið neina staðfestingu en höfum áhyggjur af því að ef að aðeins einn gangur sé notaður af okkur verði hinn gangurinn notaður fyrir túrista. Erum við að fara að deila húsnæðinu með einhverjum öðrum? Vonandi er það bara orðrómur.“

 Fréttir mbl.is:

Hætta við að námið þynnist út í Reykjavík

HÍ hefur hug áað nýta Laugarvatn áfram

Grunnámið flutt frá Laugarvatni

Dísa er á öðru ári í íþróttafræði við Háskóla Íslands.
Dísa er á öðru ári í íþróttafræði við Háskóla Íslands.
Frá árlegri útivistarferð fyrsta árs nema en óvíst er um …
Frá árlegri útivistarferð fyrsta árs nema en óvíst er um örlög hennar með nýjum árgangi. Ljósmynd/Vatnið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert