Þriðjungur íslenskra heimila er með áskrift að efnisveitunni Netflix samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR eða 33,2%. Meirihlutinn, eða 59,3%, hefur hins vegar ekki slíka áskrift samkvæmt könnuninni. Spurt var: „Ert þú eða einhver á þínu heimili með áskrift að Netflix?"
Misjafnt er eftir þjóðfélagshópum hvort fólk er með áskrift að Netflix. Þannig eru heimili 46,1% þeirra sem eru á aldrinum 18-29 ára slíka áskrift en hins vegar aðeins um 7,7% heimila þeirra sem voru 68 ára og eldri. Tekjuhærri hópar voru einnig líklegri til að hafa Netflix áskrift heldur en tekjulægri hópar. Þá eru kjósendur Framsóknarflokksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs ólíklegri til að hafa Netflix áskrift en stuðningsmenn annarra flokka. Líklegastir til að hafa slíka áskrift eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins.
Hliðstæð skoðanakönnun var gerð af MMR fyrir Viðskiptablaðið fyrir tveimur árum í febrúar 2014. Þar kom fram að 16,7% höfðu aðgang að Netflix á heimili sínu. Þá var hins vegar aðeins hægt að nálgast slíka áskrift eftir krókaleiðum, til að mynda með því að skrá hana í gegnum bandaríska eða breska ip-tölu. Í byrjun þessa árs var hins vegar opnað fyrir áskrift fyrir íslenskar ip-tölur. Áskriftir að Netflix hér á landi hafa þannig tvöfaldast á tveimur árum. Hvernig skiptingin er í dag á milli íslensku útgáfunnar og erlendra útgáfa þjónustunnar liggur ekki fyrir.