Orkuveitu Reykjavíkur hafa ekki borist fregnir af vandkvæðum álestrarmanna við að fá aðgang að mælum í híbýlum fólks. Þetta segir Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar í samtali við mbl.is.
Líkt og áður hefur komið fram þá villti maður á sér heimildir á mánudagsmorgun þegar hann sagðist vera á vegum veitufyrirtækis og að hann þyrfti að lesa af mælum. Þannig komst hann inn í hús konu og er talinn hafa brotið kynferðislega á henni í kjölfarið.
Vilji fólk ekki fá starfsmenn veitufyrirtækja inn á heimili sín þá eru því ýmis úrræði fær að sögn Eiríks.
„Ef farið er inn á heimasíðuna veitur.is þá er þar að finna form sem hægt er að nota til að skila álestri. Þá er einnig hægt að hringja í 516-6000 og senda tölvupóst á netfangið veitur@veitur.is,“ segir Eiríkur.
Veitur, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, hefur vakið athygli á því að álestrarmenn á vegum fyrirtækisins eru ávallt klæddir fatnaði sem greinilega er merktur fyrirtækinu. Þá eru þeir með í fórum sínum starfsmannaskírteini með mynd, ferðist um á bíl merktum Veitum og stundi álestur á heimilum á milli klukkan tíu að morgni og sjö að kvöldi.
Segir í tilkynningu frá Veitum að þær þakki viðskiptavinum „það traust sem álesarar á vegum fyrirtækisins njóta og finnst ömurlegt hafi það verið misnotað.“