Upphaf málsins rannsókn á heimilisofbeldi

Húsið þar sem hjónin frá Sri Lanka búa. Talið er …
Húsið þar sem hjónin frá Sri Lanka búa. Talið er að maðurinn hafi verið með tvær konur í vinnuþrælkun í kjallara hússins.

Upphaf mansalsmálsins í Vík í Mýrdal má rekja til rannsóknar á heimilisofbeldi sem maðurinn er talinn hafa beitt eiginkonu sína. Hefur hún tvisvar fengið úrskurð um nálgunarbann á manninn, sem var handtekinn á fimmtudaginn. Fyrri úrskurðurinn var frá í október en sá síðari núna í febrúar.

Seinna málið er aftur á móti í kæruferli, en það mál mun væntanlega fá aðra meðferð vegna stöðu mannsins í dag. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Var vísað af heimili sínu í síðustu viku

Í seinni úrskurðinum um nálgunarbann sem kveðinn var upp 11. febrúar var manninum einnig vísað á brott af heimil sínu.

Oddur segir að heimilisofbeldismálið sé til rannsóknar sérstaklega, en maðurinn var eins og áður hefur komið fram handtekinn og settur í gæsluvarðhalds vegna gruns um mansals þar sem tvær konur eru taldar hafa verið í vinnuþrælkun hjá manninum.

Maðurinn var yfirheyrður eftir að hann var handtekinn, áður en farið var fram á gæsluvarðhaldið. Oddur segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um fleiri skýrslur eða yfirheyrslu en búast megi við því að það verði gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert