Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið til Reykjavíkur með þrjá karlmenn sem höfnuðu í Sporðöldulóni. Mennirnir eru ekki slasaðir en einn þeirra er með verk fyrir brjósti. Mennirnir voru í jeppaferð og hafnaði bíll þeirra úti í lóninu. Þeir komust af sjálfsdáðum út úr bílnum og upp á garð við lónið.
Sjúkrabílar voru á leið til mannanna en hefðu ekki komist alla leið til þeirra vegna ófærðar. Ákveðið var að kalla þyrluna út sem var skammt frá við æfingar.
Þegar þyrlan lendir í Reykjavík verður einn mannanna fluttur á sjúkrahús en hinir tveir munu líklega ekki þurfa á aðhlynningu að halda. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er ekki um erlenda ferðamenn að ræða.
Sporðöldulón er lón Búðarhálsstöðvar.
Uppfært 23. febrúar 2016 kl. 08:40
Upprunalega stóð í fréttinni að bíllinn hefði hafnað í Sultartangalóni en það hefur nú verið leiðrétt.