Fjölmennt lið lögreglu var kallað út í Móabarð í Hafnarfirði í gær. Þetta staðfestir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Talið er að þar hafi verið á ferð sami maður og talinn er hafa brotið kynferðislega á konu í húsi hennar. „Við vitum það ekki en teljum það hins vegar afar líklegt,“ segir Árni Þór.
Uppfært 12:19: Að sögn lögreglu réðst maðurinn aftur gegn konunni í gær, þeirri sömu og hann réðist gegn á mánudag. Í báðum tilvikum voru árásir mannsins mjög alvarlegar að sögn Árna. Þá voru þær í bæði skiptin af kynferðislegum toga.
Í nýrri tilkynningu frá lögreglu segir að hún leiti nú upplýsinga um mannaferðir í Móabarði um áttaleytið í gærkvöldi.
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn að karlmanni sem var á ferli í Móabarði í Hafnarfirði sl. mánudagsmorgun, 15. febrúar, um kl. 8 vegna máls sem hún hefur til rannsóknar. Maðurinn, sem er um 180 sm á hæð og fölleitur, var dökklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Hann er talinn vera á aldrinum 35 – 45 ára.
Lögreglan leitar enn fremur upplýsinga um mannaferðir á sama stað í gærkvöld, sunnudaginn 21. febrúar, um kl. 20. Rannsókn lögreglu snýr að tveimur alvarlegum tilvikum sem beinast gegn sama einstaklingi, en síðara tilvikið átti sér stað í gærkvöld á áðurnefndum tíma.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.“
Nokkur fjöldi ábendinga hafði borist lögreglu á föstudag um ferðir mannsins, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn konu í Móabarði á mánudagsmorgun. Í samtali við mbl.is sagði Árni að ábendingarnar hefðu þá enn ekki leitt til handtöku mannsins.
Maðurinn villti á sér heimildir en hann sagðist vera á vegum veitufyrirtækis og að hann þyrfti að lesa af mælum. Þannig er talið að hann hafi komist inn til konunnar og brotið á henni.
Frétt mbl.is: Tengist kynferðisbroti í Hafnarfirði
Árni segir að haft hafi verið samband við veitufyrirtæki sem þjónusta Hafnarfjörð. „Það er búið að kanna þann möguleika en ekkert nýtt hefur komið í ljós. Nú verður haldið áfram að vinna úr vísbendingum auk þess sem við leitum hugsanlegra gagna.“
Ekki er vitað til þess að maðurinn hafi haft til að bera einkenni veitufyrirtækis eða framvísað skilríkjum í þá veru.
Lögregla lýsti eftir upplýsingum um ferðir mannsins á miðvikudag. Þar segir að hann sé um 180 sm á hæð og fölleitur og hafi verið dökkklæddur, með svarta húfu og svarta hanska. Er maðurinn talinn vera á aldrinum 35 – 45 ára.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu á skrifstofutíma í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.