Stýrihópur á vegum forsætisráðherra um endurskipulagningu verkefna Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands hefur skilað af sér frumvarpi til laga þar sem lagt er til að Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands verði sameinuð í eina stofnun, Þjóðminjastofnun.
Þjóðminjasafnið verður þó áfram til sem höfuðsafn og um það munu gilda sérlög.
Í frumvarpinu er að finna ýmsar breytingar á lögum um menningarminjar sem lúta að því að styrkja umgjörð málaflokksins. Varða breytingarnar einkum fyrirkomulag leyfisveitinga vegna fornleifarannsókna ásamt því að aldursfriðun forngripa, húsa og mannvirkja er bundin við ártal í stað árafjölda.
Gert er ráð fyrir að rekstrargjöld stofnananna lækki umtalsvert við sameininguna. Með breytingum skapist tækifæri á að endurskipuleggja verkaskiptingu, ferla og skipulag verkefna.
„Er það skoðun stýrihópsins að óhætt sé að setja það fjárhagslega markmið með sameiningunni að nýrri stofnun takist að ná allt að 10% hagræðingu innan þriggja ára,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Stýrihópurinn var skipaður af forsætisráðherra í nóvember síðastliðnum og voru honum sett þau markmið að skoða og gera tillögur um leiðir að endurskipulagningu stofnanakerfisins sem skilað gætu faglegum ávinningi og skýrari verkaskiptingu. Miðar frumvarpið að því að ná þessum markmiðum á næstu þremur árum.