Vaktinni lýkur um miðja viku

Ferðamenn í ógöngum við Reynisfjöru.
Ferðamenn í ógöngum við Reynisfjöru. mbl.is/Rax

Lögreglan á Suðurlandi verður með vakt við Reynisfjöru fram í miðja viku. Lögreglan hefur vaktað svæðið frá 11. febrúar, deginum eftir banaslys sem varð þegar alda hrifsaði erlendan ferðamann af stuðlabergssteini í fjörunni. 

Vaktin var fjármögnuð til tveggja vikna af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu en óljóst er hvað tekur við þegar henni lýkur.

„Það er verið að vinna áhættugreiningu og vonandi verður því lokið og búið að grípa til aðgerða þegar okkar vöktun lýkur,“ segir Oddur Árnason, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi. „Það var rætt um hálfan mánuð og ég geri ráð fyrir að sá tími dugi til að koma þessu í farveg.“

Þó að það sé sorglegt að segja frá er ekki hægt að halda því fram að banaslysið hafi komið mikið á óvart. Aðeins viku áður höfðu myndir birst úr fjörunni sem sýndu öldu kippa fótunum undan og kaffæra konu sem var þar á ferð með stórum hópi fólks. 

„Það er mikil umferð þarna, þúsundir manna á hverjum degi,“ segir Oddur sem kveður vaktina hafa gengið vel hingað til.

 „Fararstjórarnir sem eru að fara þarna með hópa af fólki hafa sagt okkur að [lögregluvaktin] geri líf þeirra miklu auðveldara og einfaldara. Fólk hafi verið að fara á taugum yfir því að menn væru að fara sér að voða og það hefur sannarlega verið þörf á að grípa til einhverra aðgerða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert