„Við erum í fullri vinnu við gagnaöflun og skýrslutökur,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, um stöðu rannsóknar á mansalsmálinu í Vík í Mýrdal þar sem eigandi verktakafyrirtækis er grunaður um að hafa haldið tveimur konum með erlent ríkisfang í vinnuþrælkun. Upphaf málsins má rekja til rannsóknar á heimilisofbeldi sem maðurinn er talinn hafa beitt eiginkonu sína.
„Við erum með leirinn á borðinu og erum ekki kominn með mannsmynd á hann.“
Eins og greint var frá fyrir helgi hefur maðurinn verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. mars vegna málsins. Maðurinn er fæddur árið 1975 og er frá Sri Lanka.
Áður hafði komið upp lögreglumál vegna starfsmanna hjá fyrirtæki mannsins en Þorgrímur segir ekki tímabært að segja til um umfang málsins eða spá fyrir hvernig rannsókn muni vinda fram. Ein skýrsla geti breytt stefnunni alfarið.
„Við erum í grunninum núna og erum að byggja okkur upp. Hvað byggingin verður há vitum við ekki.“