Funda með nemendum á Laugarvatni

Ákveðið var á fundi háskólaráðs þann 18. febrúar síðastliðinn að …
Ákveðið var á fundi háskólaráðs þann 18. febrúar síðastliðinn að flytja nám í íþrótta- og heilsu­fræði frá Laug­ar­vatni til Reykja­vík­ur frá og með næsta hausti. Sigurður Bogi Sævarsson

Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs við Háskóla Íslands, hefur boðað til fundar með nemendum sem stunda grunnnám í íþrótta- og heilsufræði á Laugarvatni. Fundurinn fer fram næstkomandi fimmutdag, 25. febrúar.

Fundurinn er boðaður í framhaldi af ákvörðun háskólaráðs um að  flytja nám í íþrótta- og heilsu­fræði frá Laug­ar­vatni til Reykja­vík­ur.

Sjá frétt mbl.is: Grunn­námið flutt frá Laug­ar­vatni

„Við vildum boða þennan fund strax eftir að ákvörðunin var tekin til þess að hitta nemendur og fara yfir málin, heyra þeirra sjónarmið og svara spurningum,“ segir Jóhanna í samtali við mbl.is.

Ásamt Jóhönnu munu Ástríður Stefánsdóttir, deildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar, Elín Jóna Þórsdóttir, deildarstjóri og Björg Gísladóttir, rekstrarstjóri Menntavísindasviðs sitja fundinn. Einnig verður fulltrúi frá stjórnsýslu Háskóla Íslands á fundinum.

Á fundinum verður farið yfir hvað flutningur námsins til Reykjavíkur hefur í för með sér fyrir nemendur sem stunda nám við skólann nú þegar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, mun ekki sitja fundinn, en samkvæmt upplýsingum frá skriftstofu rektors mun hann sitja annan fund á sama tíma. Jón Atli hefur greint frá því að þeir sem hafa þegar hafið nám á Laug­ar­vatni munu klára námið þar.

Dísa Ragn­heiður Magnús­dótt­ir, formaður Nem­enda­fé­lags­ins Vatns­ins á Laugarvatni, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að nemendur hafi hins vegar áhyggjur að hluti kennslunnar fyrir núverandi nemendur muni færast til Reykjavíkur. „Fólk hef­ur áhyggj­ur af því að eitt­hvað af kennsl­unni muni fara fram í Reykja­vík sem þýðir að við þurf­um að keyra mikið á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert