Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar, segir að niðurstaða Félagsdóms um að verkfall félagsins í álverinu í Straumsvík sé löglegt, hafi ekki komið sér á óvart.
„Ég taldi allar líkur á því að þetta færi á þennan veg, því við vorum búin að skoða þetta frá svo mörgum hliðum,“ segir Kolbeinn.
Vitnaleiðslum í málinu lauk um kvöldmatarleytið. Kolbeinn og Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna í Straumsvík báru vitni ásamt Sigurði Þór Ásgeirssyni, fjármálastjóra ISAL. Fyrst var farið yfir stöðuna með lögmönnum og eftir það fóru dómarar yfir málið. „Þetta virtist ekki taka langan tíma hjá þeim enda hefðum við ekki farið þessa vegferð nema við töldum að við værum að fara rétta leið,“ segir Kolbeinn.
Verfakallsvakt hefst á miðnætti, þar sem fylgst verður með því að engu áli verði skipað út fyrr en verkfallinu verði aflýst.
„Við setjum verkfall á útflutning á áli en það eru önnur störf sem starfsmenn geta unnið. Við erum að reyna að búa til pressu á fyrirtækið og fá það til að koma að gerð kjarasamnings. Við erum búin að reyna að ná samningi í 14 mánuði og þetta er liður í að búa til þrýsting,“ segir hann.
Kolbeinn kveðst reikna með því að Rio Tinto Alcan muni núna hugsa sinn gang. „Þetta getur haft áhrif á sölu hjá þeim bæði næstu vikurnar og inn í framtíðina. Ég reikna með því að erlendir aðilar fari að leita annað eftir áli ef það eru ekki að koma vörur frá Íslandi.“