Hefur tekið lengri tíma en vonast var til

Mynd af slysstað.
Mynd af slysstað. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Drög að skýrslu um orsakir flug­slyss sem varð á Ak­ur­eyri á frí­degi versl­un­ar­manna þann 5. ág­úst 2013 hafa verið lögð fyrir rannsóknarnefnd samgönguslysa. Tveir létust í slysinu, flugstjóri og sjúkraflutningamaður en einn, flugmaður um borð, komst lífs af.

Nefndin mun gera á lagfæringar skýrslunni ef þess þykir þurfa og þá verða drögin send á aðila máls. Þeir geta haft allt að tveggja mánaða umsagnarfrest en eftir þann frest verður skýrslan birt opinberlega.

Þorkell Ágústs­son, rann­sókn­ar­stjóri flug­slysa­sviðs, segir rannsóknina þannig á lokastigi. Það sagði hann raunar einnig í samtali við mbl.is í ágúst í fyrra sléttum tveimur árum eftir slysið en þá kvaðst hann eiga von á að skýrslan yrði tilbúin á þessu ári.

„Ég var svona að vona það en það gekk ekki eftir,“ segir Þorkell. „Svo urðu tvö önnur banaslys sem við fórum í; í Barkárdal fyrir norðan og í Hafnarfjarðarhrauni.“

Fyrra slysið sem Þorkell vísar í varð aðeins fjórum dögum eftir fyrrnefnt samtal hans við mbl.is. Þar hrapaði lítil flugvél með tveimur mönnum innanborðs, með þeim afleiðingum að annar lést en hinn hlaut m.a. alvarleg brunasár og þurfti að gangast undir aðgerð vegna þeirra. Flugvélin var á leið til Keflavíkur, og þaðan til Kanada með viðkomu á Grænlandi, þegar hún brotlenti á fjallinu Gíslahnúk. 

Fréttaknippi mbl.is: Flugslys í Barkárdal

Seinna slysið varð þann 12. nóvember síðastliðinn en þá fórust tveir flug­kenn­ar­ar við Flug­skóla Íslands þegar lít­il kennsluflug­vél frá skól­an­um brot­lenti í hrauni sunn­an Hafn­ar­fjarðar. Flug­vél­in var ít­ölsk, af gerðinni Tecnam og var ein fimm slíkra véla sem komu til lands­ins fyrr í sama mánuði.

Fréttaknippi mbl.is: Flugslys við Hafnarfjörð

Þorkell segir að bæði slysin séu enn í rannsókn og að nokkuð sé í að niðurstöður um þau liggi fyrir. Hann segist þó vonast til þess að rannsókn málanna taki ekki jafn langan tíma og raunin varð með flugslysið á Akureyri.

Texti feng­inn af rnsa.is.
Texti feng­inn af rnsa.is. mbl.is/KG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert